Menning

Fækkar aðgerðum vegna æxla í húð

Nýtt lyf sem upprætir vissar tegundir húðkrabbameins hefur verið flutt hingað til lands og samþykkt af yfirvöldum. Það heitir Metvix og er þróað og framleitt í Noregi. Lyfið hefur gagnast vel á húðæxli af flöguþekju-uppruna og fækkað skurðaðgerðum vegna þeirra. Metvix er krem sem er borið á æxlið í ákveðinn tíma og síðan er bletturinn lýstur með sérstöku tæki. Það er síðan samverkun lyfsins og ljóssins sem vinnur á meininu. Gísli Ingvarsson, húðlæknir í Lágmúlanum er kunnugur þessari meðferð og hefur yfir tæki að ráða sem notað er með áburðinum. "Ég kynntist þessu lyfi í Tromsö í Noregi þar sem ég starfaði um tíma," segir hann og staðfestir að Metvix sé orðið þekkt víða í Evrópu og tæknibúnaðurinn og aðferðafræðin sem þurfi til að beita meðferðinni sé vel þekkt af öllum húðsjúkdómalæknum. Hann telur þessa aðferð jafnvel gagnast á fleiri krabbamein en húðkrabba en skilyrði fyrir lækningu sé að hægt sé að koma ljósgjafanum að. Gísli segir húðkrabbamein hafa aukist jafnt og þétt í hlutfalli við sólarnotkun fólks og flöguþekju og grunnfrumumeinin sem Metvix vinnur á segir hann algeng hjá norrænu fólki. Meðferðin dugar hinsvegar ekki gegn sortuæxlum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×