Sport

Júlíus Jónasson ósáttur

Júlíus Jónasson, þjálfari ÍR-inga í DHL-deildinni í handbolta, segir Jóhann Inga Gunnarsson, formann landsliðsnefndar HSÍ, hafa skotið niður alla þjálfara á Íslandi með ummælum sínum um varnarþjálfun í Fréttablaðinu í gær. Jóhann Ingi hélt því fram að margir leikmenn íslenska landsliðsins kynnu hreinlega ekki hvernig þeir ættu að standa í vörn og skorti grunnþekkingu í varnarleik. "Auðvitað tók maður þessi ummæli til sín. Ég hef ekki séð Jóhann Inga á æfingum hjá mér og ég man ekki heldur eftir að hafa séð hann á leikjum hjá mér. Þess vegna finnst mér þetta vera stór orð sem hann lét hafa eftir sér," segir Júlíus. Hann segist geta tekið undir það með Jóhanni Inga að varnarleikur Íslands hafi ekki verið jafn slakur í mörg ár en jafnframt að hann trúi því ekki að það sé þjálfun um að kenna. "Ég get ekki annað en talað fyrir sjálfan mig en ég trúi því hreinlega ekki að hin félögin séu að hugsa minna um varnarleik en áður. Mér finnst af og frá að Jóhann Ingi geti skotið niður alla þjálfarana með því að segja að varnarþjálfun sé á undanhaldi. Ef ég tala fyrir sjálfan mig þá legg ég mikla áherslu á varnarleik og reyni að kenna mínum mönnum hvernig á að spila og hugsa varnarleik. En það verður að hafa það í huga að við þjálfarar höfum einn og hálfan klukkutíma á dag til að æfa og það er gefið að ekki er hægt að sinna öllum þáttum eins vel og maður vill. Þetta er einfaldlega ekki nægur tími," segir Júlíus.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×