Sport

Ronaldinho seldur á tíu milljarða?

Ítalskir fjölmiðlar greina frá því um helgina að Chelsea ætli sér að gera 83 milljóna punda mettilboð í framherjann Ronaldinho hjá Barcelona. Samkvæmt heimildum ítalska blaðsins Corriere dello Sport myndi brasilíski leikmaðurinn fá níu ára samning og hafa um tíu milljónir punda í árslaun. Umboðsmaður Ronaldinho, Roberto de Assis, sem einnig er bróðir hans, þvertekur fyrir að fótur sé fyrir efni greinarinnar og segir leikmaðurinn sé í viðræðum við Barcelona um að framlengja núverandi samning sinn við liðið um fimm ár. Barcelona setti á sínum tíma ákvæði í samning hans sem segir að 100 milljón punda tilboð þurfi að berast til að fá hann lausan frá liðinu, en það er gert til að fæla frá hugsanlega kaupendur. Eðli málsins samkvæmt væru mörg lið tilbúin til að fá leikmanninn til sín, enda hefur hann verið einn besti knattspyrnumaður heims undanfarin ár og engum dylst snilli hans.Ronaldinho er sagður vera ósáttur við að fyrrverandi aðstoðarforseti liðsins, Sandro Rosell, sagði af sér á dögunum, en hann er maðurinn sem átti stóran þátt í að fá Ronaldinho til Barca á sínum tíma. Leikmaðurinn hefur þó alltaf sagt að hann vilji vera á Spáni, því þar líði honum og fjölskyldu hans vel og það sé ástæða þess að hann valdi spænskt lið fram yfir enskt á sínum tíma.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×