Viðskipti innlent

Markaðsvirði félaga um 1500 milljarðar

Markaðsvirði skráðra félaga í Kauphöll Íslands jókst um tæplega 61 milljarð króna í júlí. Markaðsvirði félaganna nemur því í dag um 1500 milljörðum króna. Mest jókst markaðsvirði Landsbankans eða um 19,5 milljarða en þar á eftir kemur Actavis sem bætti við sig um 19,4 milljörðum króna. Þetta kemur fram í Hálffimm fréttum KB banka í gær. Þar segir að aukning á markaðsvirði Actavis stafi þó aðallega af útgáfu nýs hlutafjár í mánuðinum fyrir um 14 milljarða í kjölfar kaupanna á bandaríska lyfjafyrirtækinu Amide. Mest lækkun varð hins vegar á markaðsvirði Mosaic Fashions í mánuðinum en hún nam 3,2 milljörðum og þar á eftir dróst markaðsvirði Icelandic Group saman um 1,7 milljarða eftir að félagið sendi frá sér afkomuviðvörun. Í lok júlí nam markaðsvirði skráðra félaga um 1500 milljörðum króna og hafði þá aukist um 378 milljarða frá áramótum. Þróunin það sem af er ágúst hefur þó ekki verið verri í því samhengi og hefur markaðsvirði félaganna í Kauphöllinni nú aukist samtals um 58,3 milljarða króna. Meirihluti fyrirtækja í Kauphöllinni sem hafa birt afkomutölur fyrir annan ársfjórðung hefur skilað mun betri afkomu en greiningardeildir bankanna gerðu ráð fyrir og skýrir það vafalaust að hluta til ofangreindar verðhækkanir félaganna síðustu daga.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×