Sport

Butt útilokar ekki landsliðið

Miðjumaðurinn Nicky Butt, sem er í láni hjá Birmingham frá Newcastle í vetur, segist ekki útiloka að spila aftur með enska landsliðinu ef kallið kæmi. Butt þótti standa sig vel á HM með Englendingum árið 2002, en hefur átt erfitt uppdráttar á síðustu tveimur árum. "Maður verður auðvitað að vera fastur maður í félagsliði sínu ef maður ætlar sér að komast í landsliðið," sagði Butt, sem hefur byrjað leiktíðina ágætlega undir stjórn fyrrum félaga síns hjá Manchester United, Steve Bruce. "Ef kallið kæmi frá landsliðinu, myndi ég ekki hika við að stökkva á það, en ég er ekkert að hugsa um það núna frekar en ég gerði fyrir fimm árum síðan," sagði Butt, sem var kallaður einn besti leikmaður enska liðsins á HM árið 2002 af engum öðrum en knattspyrnugoðinu Pele. "Ég tek svona ummælum með miklum fyrirvara, því ef Pele var að tala við blaðamann frá Englandi þegar hann sagði þetta og ef hann hefði verið að tala við Þjóðverja eða Hollending, hefði hann eflaust sagt eitthvað allt annað," sagði Butt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×