Viðskipti innlent

Íbúðalánasjóður aðal orsakavaldur

Seðlabankinn hefur ritað bréf til ríkisstjórnarinnar í tilefni þess að verðbólga fór yfir hin 4% vikmörk verðbólgumarkmiðsins, samkvæmt Hálffimmfréttum KB banka. Bréfið var birt eftir lokun markaða í dag og er fremur stutt. Vitnað er til fyrri greiningar sem birst hafa í Peningamálum Seðlabankans hvað varðar eftirspurnarþrýsting, hita á fasteignamarkaði og ónógt aðhald í ríkisfjármálum. Að öðru leyti er vísað til nánari umfjöllun í Peningamálum sem birtast þann 29. september næstkomandi. Ennfremur verður beðið með allar vaxtaákvarðanir fram til þess tíma. Sérstaka athygli vekur hins vegar að Seðlabankinn nefnir Íbúðalánasjóð sérstaklega til sögunnar sem orsakavald fyrir „óhóflegri aukningu útlána undanfarið ár“ og segir að æskilegt sé að staða sjóðsins sé skýrð sem allra fyrst. Verðbólguspá og þjóðhagsspá bankans verður kynnt síðar í mánuðinum en þá mun bankastjórnin meta þörfina fyrir frekari aðhaldsaðgerðir. Stýrivextir bankans voru hækkaðir eftir síðustu verðbólguspá í júní og jafnframt sagt að frekari hækkana væri þörf.. Í greinargerð bankans segir að viðskiptahallinn verði að öllum líkindum meiri en spáð var þá, íbúðaverð hafi hækkað áfram hröðum skrefum og útlán aukist. Þá gæti aukinnar spennu á vinnumarkaði. Þörf sé fyrir strangt aðhald í ríkisfjármálum auk þess sem æskilegt sé að staða Íbúðalánasjóðs skýrist sem fyrst þar sem óhóflega aukningu útlána megi að talsverðu leyti rekja til breytinga á markaði fyrir fasteignaveðlán.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×