Matur

Mikill áhugamaður um mat og eldamennsku: Mexíkóskur Enchilada kjúklingaréttur

Höskuldur Eiríksson. Er margt annað til lista lagt en að sparka í bolta og hér deilir hann með lesendum góðri uppskrift að mexikóskum kjúklingarétti.
Höskuldur Eiríksson. Er margt annað til lista lagt en að sparka í bolta og hér deilir hann með lesendum góðri uppskrift að mexikóskum kjúklingarétti. MYND/Hörður

Höskuldi Eiríkssyni, lögfræðingi hjá Logos og fyrirliða fótboltaliðs Víkings, er margt til lista lagt og eitt af því er eldamennska. Hann segist þó láta kærustu sína um allt dúllerí eins og hann orðar það og sér sjálfur um grófu og karlmannlegu hlutina eins og að grilla og krydda kjötið.

„Ég er eiginlega alltaf á æfingum í matartímanum þannig að mér gefst ekki mikill tími til að æfa mig í eldamennskunni,“ segir Höskuldur en bætir því þó við að þetta standi allt saman til bóta og að hann vilji læra meira og gefa sér góðan tíma í eldhúsinu. Höskuldur segir að Freyja unnusta hans sé afbragðskokkur og að hún stjórni eiginlega eildhúsinu en þegar frí er á æfingum eða um helgar þá reyni hann að láta til sín taka og langoftast verða kjúklingaréttir fyrir valinu.

„Þessi uppskrift er í miklu uppáhaldi hjá mér en ég get þó ekki eignað mér heiðurinn af henni. Ég fékk hana í gegnum fjölskyldu Freyju en hún birtist fyrir mörgum árum í Morgunblaðinu í viðtali við Snæfríði Þóru Egilson.“

Rétturinn ber nafnið Mexíkóskur Enchilada kjúklingaréttur og uppskriftin er svohljóðandi:



Hráefni:

2 msk. ólífuolía

1 laukur, saxaður smátt

2-3 hvítlauksrif

3 græn chilipiparaldin, fræhreinsuð og fínsöxuð

1 msk. ferskur kóríander, saxaður smátt

1 dós niðursoðnir tómatar

1-2 msk. tómatmauk

salt og pipar

250 gr. soðinn kjúklingur

250 gr. rifinn ostur

250 gr. kotasæla

12 hveititortillur



Aðferð:

Hitið ofninn í 200 gráður og smyrjið grunnt eldfast mót. Hitið olíuna á pönnu og steikið lauk og hvítlauk í 5-10 mín eða þar til hann mýkist án þess að brúnast. Bætið við chilipipar og kóríander og síðan tómötum og tómatmauki ásamt salti og pipar. Látið hræruna krauma í 20 mín. Blandið saman smátt skornu kjúklingakjöti, osti og kotasælu og setjið í skál. Fyllið tortillurnar með blöndunni, vefjið up og raðið þétt á fatið með samskeytin niður. Hellið tómathrærunni yfir tortillurnar, setjið álpappír yfr fatið og bakið í 30 mín. Takið þá álpappírinn af fatinu og bakið í 15 mín. í viðbót. Skreytið réttinn með söxuðum kóríander og berið fram heitan. Nauðsynlegt er að hafa kröftugt grænmetissalat með réttinum.

Höskuldur segist þó vera mikill lambalærismaður og fær hann sér það á vel völdum tækifærum. Hann segir að þau skötuhjúin séu dugleg að bjóða góðum vinum í mat og velji þá oftast lambalæri enda er það þekktur hátíðismatur.

„Eftir að við eignuðumst okkar fyrsta barn, Ragnheiði Völu, þá fórum við að hugsa meira um að hafa fjölbreytt mataræði og eldum til dæmis mun oftar fisk núna,“ segir Höskuldur. Hann segist treysta Freyju mjög vel í eldhúsinu enda sé hún með mjög frjótt ímyndunarafl og reynir hann að fylgjast með henni við störf til að læra.

„Ég á ennþá margt ólært í eldamennsku og vonandi í framtíðinni get ég farið að elda meira enda er ég annálaður áhugamaður um mat,“ segir þessi ungi og efnilegi lögfræðingur og fótboltamaður að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×