Skoðun

Afa vill aðgerðir

Afa-samtökin, félag aðstandenda aldraðra, héldu blaðamannafundfyrir skömmu um ástandið í vistunarmálum aldraðra. Gagnrýndu þau harðlega „útspil" heilbrigðisráðherra en ráðherrann tilkynnti með miklum áróðurbrag fyrir skömmu ,að verja ætti 1,3 milljörðum í byggingu hjúkrunarheimila næstu 4 árin.

Bentu samtökin á, að ríkið hefði tekið nær 3 milljarða úr framkvæmdasjóði aldraðra og notað í rekstur. Þessi fjárhæð, 1,3 milljarðar, er því aðeins brot þeirrar fjárhæðar.

AFA-samtökin krefjast þess, að 3 milljörðunum verði skilað að fullu.

Samtökin sögðu á blaðamannafundinum, að algert ófremdarástand ríkti í hjúkrunar- og vistunarmálum aldraðra. Biðlistar væru langir eftir rými og margir aldraðir þyrftu að vera í hverju herbergi. Í Danmörku þekkist ekki, að fleiri en einn sé í herbergi. Ísland er mörgum áratugum á eftir Danmörku í hjúkrunar- og vistunarmálum aldraðra. Afa-samtökin krefjast þess, að aðgerðir til úrbóta verði gerðar strax en ekki eftir mörg ár eins og stjórnvöld boða.

Afa-samtökin hafa m.a. sagt, að heilbrigðisráðherra hafi ekki heimild til þess að ákveða þær aðgerðir sem hún hafi boðað í hjúkrunar- og vistunarmálum aldraðra.

Heilbrigðisráðherra, Sif Friðleifsdóttir, segir, að um misskilning sé að ræða hjá Afa- samtökunum. Aðgerðir stjórnvalda séu í samræmi við samkomulag ríkisins og Landssambands eldri borgara frá í sumar. Hér gæti verið um misskilning að ræða hjá ráðherranum. Landssamband eldri borgara hefur ekkert umboð til þess að semja fyrir hönd allra eldri borgara um málefni þeirra. Samkomulagið eða yfirlýsingin frá í sumar hefur lítið gildi. Fulltrúar Landssambandsins voru þvingaðir með hótunum til þess að skrifa undir það. Landssambandið telur þar aðeins um fyrsta skref að ræða á langri braut og hefur þegar samþykkt nýjar kröfur á hendur ríkinu.

Tekið skal undir kröfur Afa-samtakanna. Það verður að gera aðgerðir strax. Það dugar ekkert margra ára „plan".




Skoðun

Sjá meira


×