Viðskipti innlent

Nýjar norrænar vísitölur

Mynd/Valli

NOREX-kauphallirnar í Reykjavík, Osló, Stokkhólmi, Kaupmannahöfn og Helsinki hafa ákveðið að setja á stofn nýjar norrænar vísitölur, VINX-vísitölurnar. Er þeim ætlað að endurspegla norræna hlutabréfamarkaðinn á áreiðanlegan hátt og varpa ljósi á fjárfestingartækifæri á honum.

VINX-vísitölurnar eru byggðar á öllum skráðum félögum á norrænu mörkuðunum. Um það bil 800 félög eru skráð í þessum fimm kauphöllum og er markaðsvirði þeirra í kringum 1.000 milljarðar evrur. Þær verða viðmiðunar-, afleiðu-, heildar-, og atvinnugreinavísitölur og byggðar á öllum skráðum félögum á norrænu mörkuðunum.

Í fréttatilkynningu frá Kauphöllinni segir Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, þetta mikilvægan áfanga í NOREX-samstarfinu. Innkoma skráðra, íslenskra fyrirtækja í þær stuðli að auknum sýnileika íslenska markaðarins á erlendum vettvangi. Þetta styrki jafnframt Kauphöllina í frekari vinnu við að færa íslenska hlutabréfamarkaðinn inn í fleiri alþjóðlegar vísitölur og gera hann samkeppnishæfari á alþjóðavettvangi.

VINX-viðmiðunarvísitalan mun að jafnaði samanstanda af um það bil 150 til 200 félögum sem endurspegla helstu fjárfestingarmöguleika sem standa fjárfestum til boða á hlutabréfamörkuðum á Norðurlöndunum. Fimm íslensk félög komust inn í vísitöluna við fyrsta val: Actavis hf., Bakkavör Group hf., Kaupþing banki hf., Kögun hf. og Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hf.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×