Viðskipti innlent

Actavis kaupir rúmenskt lyfjafyrirtæki

Actavis Group tilkynnti í dag um kaup á rúmenska lyfjafyrirtækinu Sindan, sem er leiðandi samheitalyfjafyrirtæki í Evrópu í sölu á krabbameinslyfjum. Kaupverðið er 147,5 milljónir evra, jafnvirði 12,8 milljarða íslenskra króna. Kaupverðið er greitt með reiðufé.

Í tilkynningu fyrirtækisins kemur fram að gert sé ráð fyrir að sjóðsstaða Sindan nemi um 14 milljónum evra og að engar skuldir séu teknar yfir við kaupin.

Kaupin á Sindan opna leið Actavis inn á ört vaxandi markað fyrir samheita-krabbameinslyf, sem er svið sem Actavis hefur ekki verið starfandi á til þessa. Með kaupunum fær Actavis aðgang að markaðs- og dreifingarkerfi Sindan í 6 löndum auk þess að fá aðgang að sérhæfðum þróunar- og framleiðslueiningum, sem er grunnur að frekari vexti.

Sindan var stofnað 1991 og starfa um 220 manns hjá því. Félagið sem er með höfuðstöðvar í Búkarest í Rúmeníu, er leiðandi í þróun og framleiðslu samheita-krabbameinslyfja í Evrópu og stærsti birgi rúmenskra sjúkrahúsa. Sindan þróar, framleiðir og dreifir miklu úrvali krabbameinslyfja, í formi taflna, hylkja og stungulyfja og helstu markaðir félagsins eru Rúmenía, Bretland, Bandaríkin, Japan, Þýskaland, Ítalía og Spánn. Að auki hefur Sindan haft leiðandi stöðu á mörkuðum í Mið- og Austur-Evrópu en lyf félagsins eru auk þess seld í Búlgaríu, Ungverjalandi, Póllandi, Tékklandi, Slóvakíu og Rússlandi.

Tekjur Sindan nær tvöfölduðust á tímabilinu 2002-2005, sem samsvarar um 26 prósenta árlegum vexti. Samkvæmt óendurskoðuðum reikningum félagsins fyrir árið 2005, námu tekjur þess um 68 milljónum evra (5,9 milljarðar króna) og EBITDA var um 16,6 miljónir evra (1,5 milljarðar króna), að því er fram kemur í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×