Sport

Juventus getur tryggt sér titilinn í dag

Fagnar Juventus titlinum í dag?
Fagnar Juventus titlinum í dag?
Juventus getur tryggt sér ítalska meistaratitilinn í knattspyrnu annað árið í röð í dag, sunnudag, þegar meistararnir taka á móti Palermo á heimavelli sínum, Delle Alpi. Til að svo verði þarf Juve að vinna sigur og AC Milan að mistakast að vinna sigur gegn Parma á útivelli en þrjú stig skilja toppliðin tvö að þegar tveimur umferðum er ólokið.

Juventus hafði vænlegt forskot á toppi deildarinnar eftir áramót en eftir að liðið féll úr Meistaradeildinni hefur liðið gert fjögur jafntefli á meðan AC Milan hefur læðst eins og köttur aftan að Juventus. Stjórn Juventus hefur gripið til ýmissa örþrifaráða til að fá sem mestan stuðning áhorfenda á morgun og m.a. lækkað miðaverð niður í aðeins 5 evrur sem jafngildir um 450 íslenskum krónum.

En Sikileyjarlið Palermo berst um Evrópusæti og mun selja sig dýrt á morgun. Liðið hefur einnig stuðning frá áhangendum AC Milan sem um leið vonast eftir sigri sinna manna á morgun. En ekkert gestalið hefur farið sem sigurvegari frá Delle Alpi í vetur og Juventus hefur aðeins tapað einum leik af 36 sem var einmitt gegn AC Milan í október. Þá var síðasti sigurleikur Palermo á Delle Alpi fyrir 44 árum, eða árið 1962.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×