Sport

Jafntefli hjá Svíum og Englendingum

Henrik Larsson fagnar hér jöfnunarmarki sínu gegn Englendingum
Henrik Larsson fagnar hér jöfnunarmarki sínu gegn Englendingum AFP

Svíar og Englendingar skildu jafnir 2-2 í skemmtilegum lokaleik sínum í B-riðli HM í kvöld. Joe Cole kom enskum yfir með frábæru marki í fyrri hálfleik, en Marcus Allback jafnaði í upphafi þess síðari. Varamaðurinn Steven Gerrard kom Englendingum aftur yfir með skalla á 85. mínútu, en sænska liðið sýndi mikið harfylgi og jafnaði á þeirri 90. Þar var að verki markahrókurinn ótrúlegi, Henrik Larsson.

Enska liðið var mun sterkara í fyrri hálfleiknum, en Svíar réðu algjörlega ferðinni í þeim síðari og áttu skilið að fá stig í kvöld. Englendingar urðu fyrir miklu áfalli strax á fyrstu mínútu leiksins þegar Michael Owen sneri upp á hnéð á sér og kemur líklega ekki meira við sögu á mótinu. Wayne Rooney var skipt uppgefnum af velli í síðari hálfleik og brást hinn versti við og lamdi varamannaskýlið og kastaði af sér skónum.

Eftir þennan leik er því ljóst að Englendingar vinna riðilinn og mæta Ekvadorum í næstu umferð, en Svíar fá það erfiða verkefni að mæta gestgjöfum Þjóðverja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×