Sport

Lagerback mjög ósáttur við rauða spjaldið

Lars Lagerback, þjálfari sænska landsliðsins, var afar ósáttur við rauða spjaldið sem Teddy Lucic fékk að líta eftir aðeins rúmlega hálftíma leik gegn Þjóðverjum í dag og sagði þá ákvörðun dómarans hafa gert út um leikinn fyrir lið sitt.

"Mér er illa við að tala um dómarann, en hann hafði sannarlega mikil áhrif á gang leiksins í dag. Það er nógu erfitt að spila við Þjóðverja þegar jafnt er í liðum, hvað þá að gera það manni færri og ég er ekki frá því að dómarinn hafi einfaldlega ekki staðist pressuna," sagði Lagerback, sem hefur talsvert til síns máls. Síðara gula spjaldið sem Lucic fékk í leiknum í dag var mjög strangur dómur og þegar atvikið er skoðað aftur - er engu líkara en að brasilíski dómarinn hafi látið undan pressu Þjóðverjanna um að spjalda Lucic.

"Þrátt fyrir úrslitin er ég mjög stoltur af mínum mönnum. Þeir sýndu mikla skapfestu í síðari hálfleik og reyndust Þjóðverjunum erfiður ljár í þúfu þrátt fyrir að vera manni færri," sagði Lagerback.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×