Spænska dagblaðið Marca birtir í dag viðtal við portúgalska vængmanninn Cristiano Ronaldo hjá Manchester United, þar sem haft er eftir honum að hann vilji ganga í raðir Real Madrid. Ronaldo segist vilja hefja viðræður um að fara til Spánar ef Juan Miguel Villar vinnur forsetakosningarnar hjá Real Madrid sem verða innan skamms.
Forráðamenn Manchester United blása á þessar fregnir og benda á að leikmaðurinn sé samningsbundinn enska liðinu til ársins 2010. Ekki er laust við að þessar fréttir komi nokkuð á óvart, en séu ummæli Ronaldo rétt haft eftir honum - er ljóst að þau vekja litla hrifningu í herbúðum Manchester United.