Sport

Dreymir um að vinna tvisvar í röð

Luiz Felipe Scolari
Luiz Felipe Scolari

Luiz Felipe Scolari, þjálfari Portúgala, getur heldur betur skrifað nafn sitt í sögubækur ef hann gerir Portúgala að heimsmeisturum í knattspyrnu. Hann segir að takmark sitt með liðið fyrir HM í ár hafi verið að ná í átta liða úrslitin, en nú sé hver leikur eins og draumur sem verði að veruleika fyrir liðið.

"Ég gerði nokkuð miklar kröfur á liðið fyrir keppnina, en mér finnst það ekkert óeðlilegt," sagði Scolari, en Portúgalar höfðu aðeins einu sinni náð lengra en í 16-liða úrslitin á mótinu og það var árið 1966 þegar liðið náði þriðja sætinu.

"Við höfum þegar sannað að við erum eitt af fjórum bestu liðum heims og það er sannkallaður draumur fyrir okkur. Nú erum við aðeins einum leik frá því að spila til úrslita," sagði Scolari.

Þeir Luis Figo og Christiano Ronaldo eru báðir nokkuð tæpir fyrir leikinn við Frakka klukkan 19 í kvöld vegna meiðsla, en Scolari segir þann síðarnefnda standa öllu betur að vígi. "Ronaldo ætti að verða klár í kvöld, en ég er ekki viss um að Figo verði heill. Það verður jú bara að koma í ljós, en ég kom með 24 leikmenn á HM og það þýðir að ég treysti hverjum og einum þeirra."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×