Innlent

Stjórnarandstaðan í tilhugalífinu

Stjórnarandstaðan er í tilhugalífinu, segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar. Formenn stjórnarandstöðuflokkanna kynntu í dag, á sameiginlegum fundi, þrjú þingmál sem flokkarnir standa að. Ætlun þeirra er að sameinast um fleiri þingmál á þessu haustþingi auk þess að standa sameiginlega að kosningum í nefndir og ráð á vegum þingsins.

Stjórnarandstaðan kynnti tillögur til þingsályktunar um grundvallarbreytingar á framtíðarskipan lífeyrismála og stækkun friðlandsins í Þjórsárverum. Og síðaðst en ekki síst vilja flokkarnir þrír standa sameiginlega að frumvarpi um jafnrétti kynjanna sem vinni gegn launaleynd og kynbundnum launamun. Formennirnir segja þetta einungis byrjunina á samstarfi flokkanna.

Formaður Samfylkingarinnar sagði verið að hefja tilhugalífið þegar spurt var hvort þetta væri skref í áttina að eiginlegu kosningabandalagi. Svo væri að sjá hvort úr yrði hjónaband eða ekki.

Flokksformennirnir segja að þótt stjórnarandstaðan sé að stilla saman strengi sína séu þetta ólíkir flokkar og áfram verði áherslumunur á stefnu flokkanna þrátt fyrir samstarfið.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, sagði það jákvætt að samstarf yrði haft í ákveðnum málaflokkum. Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, sagði að kjósendur þyrftu að sjá á þau spil sem stjórnarandstaðan hefði á hendi þótt alltaf væri meiningarmunur. Í umhverfismálum hljóti að þrufa að kanna hvernig eigi að standa að stóriðju, hvenær og forgangsraða. Ákveða hversu margar verksmiðjur verði reistar og hve stórar en ekki láta stórfyrirtækin ráða því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×