Viðskipti innlent

Nýjum íbúðalánum bankanna fækkar

Reykjavík.
Reykjavík.

Útlán bankanna til íbúðakaupa í september námu tæpum 3,2 milljörðum króna en það er svipað og síðastliðna tvo mánuði. Sé miðað við sama tíma á síðasta ári er samdrátturinn hins vegar mikill en þá námu íbúðalán bankanna 14,9 milljörðum króna.

Greiningardeild Landsbankans segir heildarútlán til íbúðakaupa hafa dregist töluvert saman á milli ára og sé því ekki um mikinn hlutfallslegan samdrátt að ræða.

Í Vegvísi Landsbankans kemur fram að alls hafi 309 ný íbúðalán verið afgreidd hjá bönkunum í september og er það sjöundi mánuðurinn í röð sem nýjum lánum fækkar milli mánaða.

Mest var um íbúðalán í október og nóvember árið 2004 en þá voru veitt um 3000 ný íbúðalán í mánuði. Fækkun útlána til íbúðakaupa er skýrt merki um minni umsvif á fasteignamarkaði, að sögn deildarinnar.

Í nýútgefinni Hagspá fjallar greiningardeild Landsbankans um horfur á fasteignamarkaði en þar er gert ráð fyrir um 2-3 prósenta lækkun á fasteignaverði á milli áranna 2006 og 2007.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×