Nuri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, hyggst senda erindreka til nágrannaríkjanna á næstunni til þess að leita eftir samstarfi um að auka öryggi í Írak. Þá hyggst hann boða til ráðstefnu meðal ríkjanna um sama efni.
Frá þessu greindi ráðherrann á fréttamannafundi í dag. Maliki greindi einnig frá því að leiðtogar stjórnmálaflokka í Írak myndu hittast um miðjan mánuðinn til þess að reyna að binda enda á átök trúarhópa í landinu.
Ekkert lát virðist vera á blóðbaðinu og í dag hafa að minnsta kosti 30 manns fallið í þremur sprengjutilræðum og einni skotárás. Kofi Annan, fráfarandi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði í viðtali við BBC í gær að ástandið í Írak nú væri verra en borgarastyrjöld. Hann tók einnig undir það að líf almennra Íraka væri verra nú en á valdatíma Saddams Hússeins.