Tónlist

KK úr leik með blóðeitrun

KK liggur heima í rúminu eftir að hafa veikst alvarlega. Hann segist óðum vera að jafna sig en býst ekki við því að vera kominn á ról fyrr en eftir viku.

„Það komst einhver padda í blóðið og ég fékk krampa, var bara mjög hætt kominn. Ég var fluttur á sjúkrahús með sjúkrabíl og læknunum tókst sem betur fer að bjarga mér," segir tónlistarmaðurinn KK, en hann veiktist svona heiftarlega á laugardaginn var. KK var nýkominn heim af spítalanum þegar Fréttablaðið náði tali af honum og bar sig nokkuð vel þrátt fyrir veikindin. „Ég verð að liggja næstu vikuna og má síðan fara rólega af stað," útskýrir Kristján.

Tónlistarmaðurinn geðþekki hefur þegar þurft að aflýsa nokkrum tónleikum vegna veikindanna. „Ég reikna með að fyrstu tónleikarnir verði ekki fyrr en 31. mars í Landnámssetrinu þar sem ég verð með Einari Kára og svo styrktartónleikarnir fyrir Formu daginn eftir," segir KK en þar hyggst hann frumflytja tvö ný lög sem verða á nýrri plötu. „Ég ætla að vera með soninn á bassa, Guðmund Péturs á gítar, Ásgeir Óskarsson á trommur og svo munu frænkur mínar tvær, þær Elísabet og Elín Eyþórs- og Ellensdætur, styðja við bakið á sjúklingnum," segir Kristján og hlær. „Ég hef alltaf átt góða að," bætir hann við.

KK er nýkominn heim úr mikilli ævintýraferð um Kína ásamt Magnúsi Eiríkssyni og hann ber Kínverjum vel söguna. „Þetta er náttúrlega landið sem verður allt í öllu eftir tíu ár," segir Kristján. „Þarna hefur verið blóðug innanríkisbarátta síðastliðin fimmtíu ár en nú virðist vera að hægja um og fólkið er stolt af því að vera Kínverjar," segir Kristján. „Meira að segja Taívanar eru ekki lengur þeirrar skoðunar að vilja losna undan Kína heldur stæra sig bara af þjóðerninu," bætir hann við. „Enda vilja allir vera Kínverjar."

KK segir að vissulega hafi orðið menningarlegir árekstrar í ferðinni enda séu Íslendingar ekki eins og fólk er flest. „En Kínverjar eru það," segir tónlistarmaðurinn. „Og kannski Indverjar," bætir hann við og segir að hroki og yfirgangur vestrænna þjóða sé þeim óskiljanlegur. „Við ætlumst alltaf til að þeir lagi sig að okkar þörfum en ekki öfugt," segir hann en þetta er í þriðja sinn á átta árum sem KK heimsækir stórveldið í austri. „Ég man að árið 1999 fór ég ásamt Didda fiðlu og Ólínu Þorvarðardóttur og þá vorum við í Peking. Til marks um þá miklu breytingu sem orðið hefur í Kína var varla þverfótað fyrir reiðhjólum en einn og einn bíll á stangli. Í dag er þetta bara bíll við bíl."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×