Bíó og sjónvarp

Draumalandið - ein stjarna

Byggt á samnefndri bók Andra Snæs Magnasonar.
Byggt á samnefndri bók Andra Snæs Magnasonar.

Sumar leiksýningar bera þess merki að aðstandendur þeirra treysta ekki sögunni eða efnivið þeirra og reiða sig því á galdra leikhússins til að koma skilaboðum sínum áleiðis. Sýningin Draumalandið er lituð af því gagnstæða því einmitt þar er líkt og aðstandendurnir treysti ekki leikhúsmiðlinum til að koma boðskap sínum til fólksins.

Ég var mjög forvitin að sjá hvernig ætlunin var að dramatísera skáldfræðirit Andra Snæs Magnasonar. Ég varð hins vegar fyrir verulegum vonbrigðum þegar það kom í ljós að hópurinn ætlaði sér hreint ekki að gera það heldur einfaldlega flytja bókina og nota til þess tæki leikhússins, líkt og af handahófi. Mér er nær að kenna þetta Draumaland við ódramatískan lobbýisma fremur en leikhús.

Í þessu Draumalandi er vart hægt að tala um persónusköpun né framvindu, mér finnst varla hafa verið gerð tilraun til að draga fram hið leikræna í þessu annars ágæta verki, hvað þá að finna því nokkurn sviðsvænan strúktúr. Það tók um fimm mínútur að komast að kjarna þess, og á honum var síðan hamrað það sem eftir lifði sýningar. Öfgarnar í kunnuglegri orðræðu um stóriðjustefnu og framtíðarsýn íslensku þjóðarinnar eru í aðalhlutverki þar sem leikararnir renna stöðugt úr einni rullunni yfir í aðra en eru öll fyrst og fremst þrasgjarnir, rótlausir og ráðvilltir Íslendingar.

Sýningunni var án efa ætlað að vera greining á ákveðnu ástandi – sem er öllum kunnugt sem lesið hafa bókina hans Andra Snæs og fylgst með fréttum. Það eru kosningar á næsta leiti, um næstu helgi verður kosið um stækkunina í Straumsvík og í vor verða umhverfismálin ofarlega í hugum kjósenda. Leikhúsið getur verið máttugt tæki, sannfæring aðstandenda sýningarinnar er augljós og ásetningur þeirra skýr. Orðin eru þó eins og fengin að láni því bókin er alltaf „á bak við“ og ég varð ekki vör við tilraunir til þess að skapa sjálfstætt verk úr þessum efnivið.

Vitanlega mátti skella upp úr öðru hverju, kómísk innslög Hjálmars Hjálmarssonar og Magneu Valdimarsdóttur voru til að mynda kærkomin uppábrot.

Á öðrum stundum hríslaðist fátt um mann annað en aumingjahrollur og þegar Megas byrjaði að syngja yfir re-mix af lagi Guðmundar Magnússonar var mér líka allri lokið. Umgjörðin er í litlu samhengi við textann, framúrstefnuleg og flott á að líta en að sama skapi óhöndug. Búningarnir voru eins og náttföt með tilviljanakenndum málningarslettum – ábyggilega þægilegur klæðnaður en ég veit ekki hvaða tilgangi þau áttu að þjóna. Vídeóvélar voru ofnotaðar í sýningunni og varpanir á baktjaldið eins og illa heppnaðar, texti þar ógreinilegur og myndgæði fyrir neðan allar hellur.

Hér á landi er hvorki rík hefð fyrir pólitísku leikhúsi né heimildaleikhúsi og listamenn hafa löngum tönglast á því að þeirra hlutverk sé ekki að predika heldur „spyrja spurninga“ eða skapa „innlegg í umræðuna“. Boðandi list getur þannig ekki talist móðins hér á landi þótt mörg verk hafi verið stimpluð sem ádeilur. Ég fagna því að leikhúsfólk stígi fram og beiti sér í þjóðmálaumræðunni en framlag þetta sýnir að mínu mati hvorki málefninu, miðlinum né frumtexta sínum sóma. Ég vildi óska þess að þetta ágæta fólk hefði fremur farið í upplestrarferð með Draumalandið heldur en að sóa orku sinni í að smíða úr því svo gallaða leiksýningu.

Kristrún Heiða Hauksdóttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×