Körfubolti

DHL-höllin er ekki höllin hans Justins Shouse

Frábær í síðasta leik Justin Shouse var með 21 stig og 11 stoðsendingar í sigurleiknum á KR í Stykkishólmi á þriðjudaginn.
Frábær í síðasta leik Justin Shouse var með 21 stig og 11 stoðsendingar í sigurleiknum á KR í Stykkishólmi á þriðjudaginn. MYND/Anton

Körfubolti KR og Snæfell leika í dag þriðja leik sinn í undanúrslitaeinvígi sínu í Iceland Expressdeild karla. Staðan í einvíginu er jöfn eftir tvo nauma heimasigra og nú er svo komið að allir fjórir leikir liðanna í vetur hafa unnist með fjórum stigum eða minna.

Sá síðasti vannst á þriggja stiga körfu Danans Martins Thuesen þremur sekúndum fyrir leikslok en það var fyrsti sigur Snæfellinga í innbyrðisleikjum liðanna á tímabilinu.

Bandaríkjamaðurinn Justin Shouse átti frábæran leik í síðasta leik, skoraði 21 stig og gaf 11 stoðsendingar og það er ljóst að hann þarf að spila vel ætli Snæfellingar að eiga möguleika í DHL-Höllinni í dag. Vandamál Shouse er hins vegar að DHL-höllin er greinilega ekki uppáhaldsíþróttahús hans.



Shouse hefur aðeins hitt úr 23% skota sinna (26/6) og 50% vítanna (10/5) í tveimur heimsóknum sínum í húsið og hann er að skora helmingi minna að meðaltali gegn KR í Vesturbænum (8,5 stig í leik) en hann hefur gert í leikjum liðanna í Hólminum (17,0). Skotnýting hans gegn KR er líka tvöfalt hærri bæði utan af velli (46,4%) og af vítalínunni (100%).

Hvernig sem sóknarleikur Justins er gegn KR-ingum þá er ekki hægt annað en að hrósa honum fyrir varnarleikinn gegn Tyson Patterson.

Justin hefur nefnilega haldið Tyson í 9,8 stigum að meðaltali í fjórum leikjum kappanna og þvingað hann til þess að klikka á 67% skota sinna. Tyson hefur enn fremur aðeins komist samtals fjórum sinnum á vítalínuna í öllum leikjunum og þá hefur hann tapað 4,8 boltum að meðaltali í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×