Handbolti

Tveggja marka sigur á Tékkum

Alexander Petterson skoraði fjögur mörk í dag og lék betur en í gær.
Alexander Petterson skoraði fjögur mörk í dag og lék betur en í gær. MYND/AFP

Íslendingar höfðu betur gegn Tékkum í æfingaleik þjóðanna í handbolta sem fram fór í Laugardalshöllinni í dag. Lokatölur urðu 34-32 og náðu íslensku strákarnir þar með að hefna fyrir tapið fyrir Tékkum í gær.

Íslenska liðið spilaði mun betur í leiknum í dag og mun meiri stemning yfir leikmönnum liðsins. Sóknarleikurinn gekk vel lengst af og vörnin var að sama skapi mun þéttari en í gær.

"Það var margt gott í þessu í dag," sagði Ólafur Stefánsson, fyrirliði Íslands, í viðtali við RÚV eftir leikinn. "Ég var furðugóður í öxlinni í dag og held að ég verði bara orðinn góður fyrir mótið. Við þurfum aðeins að slípa okkur allsstaðar á vellinum, við erum að gera byrjendamistök í vörninni og það eru ákveðin mistök í sókninni að eiga sér stað. En við verðum góðir í Þýskalandi," sagði Ólafur, en hann skoraði tvö mörk í leiknum, bæði úr langskotum.

Alfreð Gíslason, þjálfari liðsins, var ekki sáttur við leik sinna manna. "Við vorum alls ekki að spila nægilega vel í kvöld, gerðum mikið af tæknifeilum og hlupum illa til baka. Þó við höfum unnið þetta erum við að spila undir getu. Við þurfum að bæta okkur verulega og þurfum að skapa meiri hættu utan af velli," sagði Alfreð Gíslason.

Snorri Steinn Guðjónsson var markahæstur í íslenska liðinu með sjö mörk en Guðjón Valur Sigurðsson og Logi Geirsson skoruðu sex mörk. Birkir Ívar Guðmundsson varði 13 skot í markinu. Hjá Tékkum var Jan Filip atkvæðamestur með níu mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×