Fótbolti

Navarro vill vægari refsingu

David Navarro átti fótum sínum fjör að launa eftir að hafa slegið Nicolas Burdisso.
David Navarro átti fótum sínum fjör að launa eftir að hafa slegið Nicolas Burdisso. MYND/Getty

David Navarro, leikmaður Valencia á Spáni, vonast til þess að afsökunarbeiðni hans til Nicolas Burdisso, leikmann Inter, verði til þess að sjö mánaða leikbannið sem hann var dæmdur í hjá UEFA og FIFA fyrir skemmstu verði stytt. Navarro, sem nefbraut Burdisso í leik liðanna í Meistaradeildinni í síðasta mánuði, hefur áfrýjað dómnum.

"Ég er miður mín vegna þess sem gerðist og tel að taka eigi tillit til eftirsjár minnar þegar áfrýjunin verður tekin fyrir. Ég er ekki árásargjarn maður og þótt að ég hafi misst stjórn á mér finnst mér ég hafa hlotið þungan dóm. Ég vona að bannið verði stytt eitthvað," segir Navarro.

Hinn 26 ára gamli varnarmaður segir síðustu vikur hafa verið erfiða fyrir sig og fjölskyldu sína. "Málinu lýkur eftir að áfrýjun mín verður tekið til skoðunar og þá mun ég taka út refsingu mína, hver sem hún verður. Ég mun koma til baka sem sterkari leikmaður og því fer fjarri að ég muni leggjast í eitthvað þunglyndi. Samviska mín er hrein eftir að hafa beðið alla hlutaðeigandi afsökunar," sagði Navarro jafnframt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×