George Bush Bandaríkjaforseti er æfur yfir heimsókn Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar þingsins, til Sýrlands þar sem hún hyggst ræða við forseta landsins um ástandið í Mið-Austurlöndum. Bandaríkjastjórn hefur ekki átt í samskiptum við Sýrlendinga í rúm tvö ár.
Pelosi kom til Sýrlands í gær, að eigin sögn til að hvetja þarlenda ráðamenn til að leggja sitt af mörkum til að koma á friði í Írak og láta af stuðningi við samtök á borð Hizbollah í Líbanon. Snemma í morgun sat hún fundi með utanríkisráðherra og varaforseta landsins og strax að þeim loknum hitti hún svo Bashir Assad Sýrlandsforseta. Sýrlendingarnir hafa þannig tekið vel á móti Pelosi þótt litlar vonir séu bundnar við raunverulegan árangur af heimsókn hennar.
Heimsóknin er hins vegar í óþökk ríkisstjórnar Bandaríkjanna enda hefur algert frost ríkt í samskiptum hennar og sýrlensku stjórnarinnar frá því að Rafik Hariri, fyrrverandi forsætisráðherra Líbanons, var myrtur fyrir rúmum tveimur árum. Rannsóknarnefnd Sameinuðu þjóðanna telur fullvíst að sýrlenska leyniþjónustan hafi staðið á bak við tilræðið.
George Bush sagði í gær að með heimsókninni græfi Pelosi undan utanríkisstefnu Bandaríkjanna og léti Assad halda að stjórn hans nyti alþjóðlegrar viðurkenningar þegar hún væri í raun útlagastjórn sem styddi hryðjuverkasamtök um öll Mið-Austurlönd.