Körfubolti

Einar Árni: Við Benni ætluðum að mætast í úrslitum

Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur, var ánægður með leik sinna manna í kvöld þegar þeir tryggðu sér sæti í úrslitum Iceland Express deildarinnar með sigri á Grindavík í oddaleik. Hann segir Njarðvík og KR bestu lið landsins í sínum huga og reiknar með spennandi einvígi.

"Ég er ánægður með allar 40 mínúturnar í dag. Þetta var verðugur andstæðingur sem við fengum en ég held að við höfum sýnt það í dag að við áttum skilið að fara í úrslit. Við höfum ekki verið að spila allt of vel í þessari seríu nema kannski í fyrsta leiknum og í dag mættu allir tilbúnir í verkefnið og skildu allt eftir á vellinum.

Vörnin, fráköstin og baráttan var það sem skipti máli í dag. Við vorum að vinna baráttuna um fráköstin með miklum yfirburðum og svo sést það á stigaskorinu í dag að við vorum að fá mikið frá öllum leikmönnum liðsins.

Ég held að Njarðvík - KR sé bara draumaúrslitaleikur. Við Benni (þjálfari KR) erum góðir vinir og við ræddum það hérna í janúar að við ætluðum að mætast í úrslitum í vor og það er bara fjör framundan. Við reiknum með erfiðri viðureign, því KR liðið hefur mikinn karakter eins og það hefur sýnt með því að koma til baka bæði gegn ÍR og Snæfelli. Þeir verða erfiðir andstæðingar og ég fullyrði það að þetta eru tvö bestu lið landsins," sagði Einar Árni, þjálfari Njarðvíkinga í samtali við Hörð Magnússon á Sýn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×