Körfubolti

Frábær 4. leikhluti tryggði Njarðvík sigur

Njarðvíkingar hófu titilvörnina í Iceland Express-deildinni með sigri á KR-ingum á heimavelli í kvöld, 99-78. Íslandsmeistararnir sýndu mátt sinn í fjórða og síðasta leikhlutanum með því að sigra KR-inga með 23 stiga mun, en staðan eftir þriðja leikhluta var 72-70, gestunum í vil. Njarðvík er því komið með 1-0 forystu í einvíginu.

Leikurinn í kvöld var mjög sveiflukenndur. Heimamenn í Njarðvík voru talsvert sterkari í fyrri hálfleik og leiddu með 14 stigum í hálfleik, 58-44. Vesturbæingar sýndu hins vegar frábæran leik í 3. leikhluta og náðu að komast yfir, 72-70. Njarðvíkingum héldu hins vegar engin bönd í síðasta leikhlutanum, eins og áður segir, og tryggði liðið sér þar sannfærandi sigur. KR-ingar skoruðu aðeins 6 stig í síðasta leikhlutanum.

“Við áttum frábæran kafla í 3. leikhluta en einhverra hluta vegna hrundi þetta hjá okkur í 4. leikhluta. Við tökum þetta á fimmtudaginn og ætlum okkur að jafna þetta einvígi strax,” sagði Benedikt Guðmundsson, þjálfari KR.

“Við vorum að spila mjög vel í fyrri hálfleik en vorum værukærir í upphafi þessi seinni. Sem betur fer kom þetta í lokaleikhlutanum,” sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur. “Við getum ennþá bætt okkur og við ætlum okkur að taka næsta leik. Við höfum verið mjög lélegir í leik númer 2 í einvígunum hingað til og nú er það áskorun fyrir okkur að breyta þeirri þróun,” sagði Einar Árni.

Jeb Ivey var stigahæstur Njarðvíkinga í kvöld með 24 stig, Brenton Birmingham skoraði 21 stig og Igor Beljanski 20 stig. Hjá KR var Tyson Patterson með 20 stig en Brynjar Þór Björnsson skoraði 18 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×