Körfubolti

Wallace með lausa samninga

Gerald Wallace treður með tilþrifum í leik gegn Indiana í vor
Gerald Wallace treður með tilþrifum í leik gegn Indiana í vor NordicPhotos/GettyImages

Framherjinn Gerald Wallace hjá Charlotte Bobcats verður með lausa samninga hjá liðinu á sunnudaginn eftir að hann ákvað í dag að afsala sér síðasta árinu af samningi sínum við félagið. Wallace verður væntanlega eftirsóttur á næstu dögum eftir frábært tímabil í fyrra.

Wallace er 25 ára gamall og gekk í raðir Charlotte árið 2004 eftir þrjú ár sem varaskeifa hjá Sacramento. Hann sprakk út þegar hann fékk loks tækifæri til að spila og hefur vakið mikla athygli með framgöngu sinni með Bobcats. Hann var stigahæsti maður liðsins síðasta vetur með rúm 18 stig í leik, hirti 7 fráköst og var með efstu mönnum í deildinni í vörðum skotum og stolnum boltum.

Wallace fékk ekki nema um 5,5 milljónir dollara í árslaun á síðasta tímabili hjá Charlotte og hætt er við því að hann vilji fá samning nú sem tryggir honum í það minnsta 10 milljónir á ári. Ekki eru mörg lið í deildinni sem hafa efni á að fá hann beint í sínar raðir, en hætt er við því að Michael Jordan og félagar í stjórn Charlotte eigi eftir að fá nokkur símtölin vegna framherjans á næstu dögum.

Talsmenn Bobcats hafa flestir gefið það út að áhugi sé fyrir því að semja aftur við Wallace, en félagið borgaði ekki nema um 41 milljón dollara í heildarlaun á síðasta tímabili. Það er langlægsta upphæð allra 30 liðanna í deildinni og til að mynda minni peningur en byrjunarliðsmenn New York Knicks þéna á ári.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×