Körfubolti

Fjölnir og ÍBH Landsmótsmeistarar í körfubolta

Fjölnismenn sigruðu í körfuboltakeppninni í karlaflokki á 25. Landsmóti UMFÍ
Fjölnismenn sigruðu í körfuboltakeppninni í karlaflokki á 25. Landsmóti UMFÍ Mynd/Rósa

Karlalið Fjölnis og kvennalið ÍBH urðu í dag Landsmótsmeistarar í körfubolta í fyrsta skipti eftir sigra í úrslitaleikjum gegn liðum Keflavíkur. Kvennalið ÍBH vann öruggan sigur í sínum úrslitaleik, en framlengja þurfti karlaleikinn.

Kvennalið ÍBH var skipað leikmönnum Hauka vann öruggan 47-21 sigur á Keflavík eftir að hafa náð 35-8 forystu um miðjan þriðja leikhlutann. Kristrún Sigurjónsdóttir skoraði 15 stig fyrir lið ÍBH og Unnur Tara Jónsdóttir skoraði 13 stig. Svava Ósk Stefánsdóttir skoraði mest Keflavíkurstúlkna, 6 stig.

Mikil spenna var í karlaleiknum þar sem Fjölnir hafði frumkvæðið framan af leik en Keflavík hafði yfir í hálfleik 22-18. Keflavík hafði enn yfir fyrir lokaleikhlutann 26-24, en í fjórða leikhluta lifnaði heldur betur yfir sóknarleik beggja liða. Fjölnismenn höfðu þriggja stiga forystu þegar skammt lifði leiks, en Magnús Þór Gunnarsson tryggði Keflvíkingum framlengingu með því að setja niður þrjú víti eftir að brotið hafði verið á honum í þriggja stiga skoti.

Í framlengingunni höfðu svo Fjölnismenn betur þrátt fyrir skotsýningu Magnúsar Gunnarssonar, sem skoraði 14 af 16 stigum sínum í leiknum í fjórða leikhluta og framlengingu. Hörður Axel Vilhjálmsson skoraði 18 stig og gaf 7 stoðsendingar fyrir Fjölni í úrslitaleiknum. Hjá Keflavík skoraði Magnús 16 stig og miðherjinn Sigurður Þorsteinsson skoraði 13 stig, hirti 9 fráköst og varði 3 skot.

Lokaröð hjá körlum á Landsmótinu 2007:

1. sæti Fjölnir

2. sæti Keflavík

3. sæti ÍBR

4. sæti ÍBA

5. sæti UMFG

6. sæti Stjarnan

7. sæti UMSK

8. sæti HSK

9. sæti UMSB

10.sæti HSH

11. sæti ÍBH

12. sæti UÍA

Lokaröð hjá konum á Landsmótinu 2007:

1. sæti ÍBH

2. sæti Keflavík

3. sæti ÍBR

4. sæti HSK

5. sæti UMSB

6. sæti Fjölnir

7. sæti UMSK




Fleiri fréttir

Sjá meira


×