Körfubolti

LeBron James meiddist á öxl

LeBron James
LeBron James NordicPhotos/GettyImages

Sex leikir voru á dagskrá á undirbúningstímabilinu í NBA deildinni í nótt. LeBron James þurfti að fara af velli meiddur á öxl þegar lið hans Cleveland tapaði fyrir Seattle.

Seattle hafði sigur 96-90 og var það fyrsti sigur PJ Cerlesimo sem þjálfari Seattle. LeBron James þurfti að fara af velli í þriðja leikhluta hjá Cleveland en hafði þá skorað 14 stig. Chris Wilcox skoraði 20 stig fyrir Seattle, en nýliðinn Kevin Durant náði sér ekki á strik og hitti aðeins úr 5 af 22 skotum utan af velli. Hann skoraði 15 stig og hirti 7 fráköst.

Miami tapaði þriðja leiknum í röð á undirbúningstímabilinu þegar liðið steinlá 102-69 fyrir grönnum sínum í Orlando. Shaquille O´Neal og Dwyane Wade léku ekki með Miami og JJ Redick skoraði 19 stig fyrir Orlando í leiknum og klikkaði aðeins á einu skoti.

Dallas vann auðveldan sigur á Dallas 100-92 í beinni á NBA TV. Josh Howard skoraði 18 stig fyrir Dallas og Luol Deng sömuleiðis fyrir Chicago.

Utah skellti Detroit 100-85 þar sem Ronnie Brewer skoraði 18 stig fyrir Jazz og þeir Paul Millsap og Deron Williams skoruðu 15 stig hvor. Jarvis Heyes skoraði 16 stig fyrir Detroit.

New Jersey lagði Philadelphia 91-90 eftir framlengdan leik. Bostjan Nachbar skoraði 35 stig fyrir New Jersey og Antoine Wright 17, en Louis Williams skoraði 33 stig fyrir Philadelphia og Rodney Carney var með 15 stig.

Loks vann Denver sigur á Portland 118-102 þar sem Carmelo Anthony skoraði 22 stig fyrir Denver en Martell Webster skoraði 19 stig og Travis Outlaw 18 fyrir Portland.

Í nótt verður bein útsending á NBA TV frá leik Indiana og Seattle á undirbúningstímabilinu og hefst hann klukkan 23. Annað kvöld verður svo sýnt beint frá leik Detroit og Denver og hefst sá leikur um klukkan 22.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×