Körfubolti

Auðveldur sigur Keflvíkinga

Gunnar Einarsson og félagar í Keflavík voru ekki í vandræðum með Stjörnumenn í kvöld
Gunnar Einarsson og félagar í Keflavík voru ekki í vandræðum með Stjörnumenn í kvöld Mynd/Vilheml

Keflavík er enn efst og ósigrað í Iceland Express deild karla í körfubolta eftir sannfærandi 101-80 útisigur á Stjörnumönnum í Ásgarði í kvöld. Keflvíkingar höfðu yfir 32-18 og litu aldrei til baka eftir það.

B.A. Walker var stigahæsti maður Keflavíkur með 32 stig en hann skoraði 20 stig í fyrsta leikhlutanum þegar Keflavíkur liðið náði sterkum tökum á leiknum. Tommy Johnson skoraði 21 stig fyrir Keflavík, en Dimitar Karadzovski skoraði 20 stig fyrir heimamenn.

Alls voru fjórir leikir á dagskrá í kvöld.

Þór Akureyri lagði Tindastól á útivelli 107-106 í hörkuleik. Cedric Isom skoraði 36 stig og hirti 12 fráköst fyrir Þór og Óðinn Ásgeirsson skoraði 27 stig. Hjá Tindastól skoraði Samir Shaptahovic 31 stig, hirti 8 fráköst og gaf 8 stoðsendingar og Donald Brown skoraði 23 stig.

Grindavík lagði Fjölni naumlega í Grafarvogi 90-84 þar sem Páll Axel Vilbergsson skoraði 20 stig fyrir Grindavík og Jonathan Griffin 19, en Níels Dungal og Karlton Mims skoruðu 21 stig hvor fyrir Fjölni.

Njarðvík stöðvaði þriggja leikja taphrinu með 75-68 sigri á Hamri í Hveragerði. Brenton Birmingham skoraði 19 stig fyrir Njarðvíkinga en George Byrd skoraði 18 sig og hirti 17 fráköst fyrir Hamar.

Keflvíkingar eru á toppnum með fullt hús, 14 stig, eftir sjö leiki. Grindavík hefur 12 stig í öðru sæti, KR hefur 10 og Njarðvík 8 í fjórða sætinu. Snæfell getur komist upp í 8 stig með sigri á grönnum sínum í Skallagrími annað kvöld og þá tekur KR á móti ÍR og getur með sigri komist í annað sætið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×