Körfubolti

Sannfærandi sigur hjá KR

Helgi Magnússon átti fínan leik hjá KR í kvöld
Helgi Magnússon átti fínan leik hjá KR í kvöld Mynd/Daniel

KR-ingar unnu í kvöld öruggan sigur á ÍR 92-60 í Iceland Express deild karla í körfubolta. Sigur KR var aldrei í hættu eftir að liðið fór með 44-29 forystu til búningsherbergja í hálfleik. KR-ingar hittu ekki sérstaklega vel úr langskotum sínum í leiknum en það var fyrst og fremst harður varnarleikur meistaranna sem skóp sigurinn.

KRingar voru án Darra Hilmarssonar og Fannars Ólafssonar í kvöld en það kom ekki að sök. Þeir Joshua Helm og Avi Fogel skoruðu 18 stig hvor, Helgi Már Magnússon skoraði 16 stig og Jovan Zdravevski skoraði 15 stig.

Skallagrímur vann grannaslaginn 

Skallagrímsmenn unnu nauman sigur á grönnum sínum í Snæfelli í hörkuleik í kvöld 81-80 eftir að gestirnir höfðu verið með þægilegt forskot í hálfleik. Snæfell skoraði hinsvegar aðeins 30 stig í síðari hálfleik og það nýttu heimamenn sér. Snæfellingar unnu baráttuna um fráköstin með yfirburðum (38-26) en liðið tapaði líka 18 boltum í leiknum gegn aðeins 7 hjá heimamönnum.

Milojica Zekovic skoraði 21 stig fyrir Skallagrím í kvöld og Allan Fall 19, en Justin Shouse var í sérflokki hjá Snæfelli með 31 stig og Sigurður Þorvaldsson skoraði 17 stig og hirti 8 fráköst. Hlynur Bæringsson skoraði 10 stig og hirti 17 fráköst.

Keflavík á toppnum sem fyrr 

Keflavík er á toppnum með fullt hús stiga (14) eftir 7 leiki, Grindavík og KR hafa 12 stig (KR eftir átta leiki), Njarðvík hefur 8 stig og svo koma Snæfell, Stjarnan, Þór Akureyri, Tindastóll og Skallagrímur öll með 6 stig, Fjölnir og ÍR hafa 4 stig og á botninum eru Hamarsmenn með aðeins 2 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×