Körfubolti

Rafmögnuð spenna í vesturbænum

Nú er orðið ljóst hvaða lið komust í 8-liða úrslit í Lýsingarbikar karla í körfubolta. Leikur umferðarinnar var án nokkurs vafa í DHL-höllinni þar sem KR vann 104-103 sigur á Grindavík í rafmögnuðum spennuleik.

Joshua Helm var atkvæðamestur í liði KR í leiknum með 29 stig en þeir Jonathan Griffin (28) og Páll Axel Vilbergsson (29) voru bestir hjá Grindavík.

Fannar Ólafsson fór mikinn í liði KR á lokamínútunum og skoraði þar tvær stórar körfur, en taugar heimamanna héldu á æsilegum lokasprettinum þar sem Grindvíkingar misstu Griffin af velli með sína fimmtu villu á nokkuð umdeildan hátt.

Friðrik Ragnarsson þjálfari Grindvíkinga var afar ósáttur við dóminn sem kostaði Griffin fimmtu villuna, en hann var búinn að vera sjóðandi heitur hjá gestunum á lokakaflanum.

Leikurinn í kvöld var hágæðaskemmtun, hraður og fjörugur eins og tölurnar bera með sér - og í raun synd að annað þessara liða skuli vera úr leik í strax í 16-liða úrslitum.

Þór Þorlákshöfn tryggði sér fyrr í dag sæti í 8-liða úrslitum með því að rótbursta Hött 106-67 á heimavelli .

Keflavík komst áfram með því að leggja Tindastól 105-94 fyrir norðan. Bobby Walker skoraði 28 stig og gaf 7 stoðsendingar fyrir Keflavík og Jón Nordal Hafsteinsson skoraði 24 stig og nýtti öll 11 skot sín í leiknum. Ísak Einarsson skoraði 19 fyrir Stólana.

ÍR gerði góða ferð í Hveragerði og lagði Hamar 81-74 þar sem Sveinbjörn Claesen skoraði 22 stig fyrir ÍR en George Byrd var með 23 stig og 21 frákast fyrir Hamar.

Loks tryggði Njarðvík sér áframhaldandi þáttöku í keppninni með nokkuð öruggum sigri á Stjörnunni í Garðabæ 104-86. Damon Bailey skoraði 31 stig og hirti 8 fráköst fyrir Njarðvík og Dimitar Karadzovski skoraði 22 stig fyrir Stjörnuna og Fannar Helgason var með 18 stig og 19 fráköst.

Þór Þorlákshöfn, Keflavík, Fjölnir, KR, Snæfell, ÍR, Njarðvík og Skallagrímur eru komin áfram og verða í skálinni þegar dregið verður í 8-liða úrslit.

Nánari umfjöllun um leiki KR-Grindavík og Stjarnan-Njarðvík verður hér á Vísi snemma í fyrramálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×