Skoðun

Laumufarþeginn

Einar Mar Jónsson skrifar

Nikulás Sarkozy var að koma aftur úr hinni umdeildu ferð sinni um Austurlönd nær og sestur upp í flugvélina á flugvellinum í Beirút í Líbanon með fríðu förneyti. Með honum voru forsprakkar allra „alvöru" stjórnmálaflokka í Frakklandi, það er að segja þeirra flokka sem eiga sæti á þingi; hafði forsetinn boðið þeim að koma með í ferðina.

Samræðurnar voru fjörugar eins og vænta mátti, en ekki leið á löngu áður en í ljós kom að í flugvélinni var einnig laumufarþegi sem enginn hafði búist við. Reyndar var hann ekki staddur þar í sinni efnislegu tilveru, en í andanum var nærvera hans þeim mun sterkari, og þegar silfurfleyið sveif upp til hæða barst talið æ meir að honum; að lokum var eins og hann væri aðalmaðurinn um borð.

Þessi laumufarþegi var „bréfberinn" Olivier Besancenot, sem svo er nefndur af því að hann hefur sitt lifibrauð af því að bera út póst en er þar fyrir utan helsti forsprakkinn í stjórnmálaflokknum „Byltingarsamtök kommúnist", skammstafað LCR á frönsku. Fyrir þá sem sjá hlutina í sögulegri vídd má geta að þessi flokkur er sprottinn upp úr trotskíistaflokknum JCR sem tók mjög svo virkan þátt í „uppreisninni" í maí "68. Hann var þá undir forystu hins skelegga leiðtoga Alain Krivine og hafði einkum innan sinna vébanda ungt fólk sem íhaldssamir og staðnaðir forsprakkar franskra kommúnista höfðu hrakið burt úr flokki sínum.

Irivine lét síðan mikið að sér kveða, hann bauð sig fram í forsetakosningum oftar en einu sinni og sat stundum í fangelsi þess á milli, ásakaður fyrir „undirróðursstarfsemi". Þessi flokkur stóð af sér allar sviptingar í frönskum stjórnmálum, meðan flestir aðrir hópar róttæklinga lognuðust út af, og gekk svo í endurnýjun lífdaganna þegar "bréfberinn" Besancenot var gerður að toppmanni. Alain Krivine er enn einn af talsmönnum flokksins og brosir glaðhlakkalega á myndum en haslar sér ekki lengur völl í fremstu víglínu.

Á fremur stuttum tíma hefur Olivier Besancenot orðið ein af stórstjörnunum í frönskum stjórnmálum. Það er að vísu nokkur dragbítur á honum, segja menn, að frá náttúrunnar hendi hefur hann höfuð og andlitssvip brjóstmylkings; eiga sumir því erfitt með að taka orð hans alvarlega. En það mun vera til marks um aukin áhrif hans og meiri virðingu fyrir honum, að upptökumenn sjónvarps eru nú farnir að mynda hann frá hlið, og í prófíl er eins og orð hans fái sinn fulla slagkraft. Styrkur Besancenot er nú einkum fólginn í því að hann heldur sér ekki við þá línu sem rétttrúnaður samtímans útheimtar og flestir aðrir stjórnmálamenn temja sér, svo ekki sé minnst á þann fréttaflutning sem nú tíðkast í fjölmiðlum.

Hann lýsir því óhikað sem allur almenningur upplifir í sínu daglega lífi en nú er ekki til siðs að tala um, hann segir frá yfirgangi auðhringa og atvinnurekenda, versnandi þjónustu á öllum sviðum vegna sparnaðar og einkavæðingar, minnkandi atvinnuöryggi, illri meðferð á vinnustöðum og þar fram eftir götunum. Og hann bendir á að frjálshyggjan sé ekki vegurinn til framfara heldur liggi sú leið í hina áttina.

Fréttaskýrendur segja að Besancenot hafi aflað sér þessara vinsælda í þremur áföngum. Hinn fyrsti þeirra var þjóðaratkvæðagreiðslan um "stjórnarskrá" Evrópusambandsins í maí 2005, þegar hann var einn af þeim fáu flokksleiðtogum sem tóku ótvírætt afstöðu með „neii" - það hefur hins vegar háð "græningjum" alla tíð síðan að þeir skyldu reka áróður fyrir "jái". Annar áfanginn voru svo mótmælaaðgerðirnar gegn nýrri tegund af vinnusamningum fyrir ungt fólk, hinum svokallaða „CPE" vorið 2006, þegar hann var fremstur í flokki, og jók það hróður hans mjög að yfirvöldin skyldu að lokum verða að falla frá þessum óvinsælu nýmælum. Þriðji áfanginn voru loks forsetakosningarnar 2007.

Ári síðar er svo komið, að samkvæmt skoðanakönnunum telur meirihluti manna hann fremstan meðal andstæðinga Sarkozys, og hann er þriðji á listanum yfir þá menn sem Frakkar vildu að fengju meiri áhrif í stjórnmálum.

Þegar flugvél Frakklandsforseta tók stefnuna vestur yfir Miðjarðarhafið, var það Francois Hollande, formaður sósíalistaflokksins, sem fyrstur vakti máls á Besancenot og gat ekki leynt áhyggjum sínum, hann óttaðist að bréfberinn kynni að nappa spón úr aski sósíalista, einkum ef Sarkozy slysaðist til taka upp hlutfallskosningar sem aldrei mætti verða. En það hlakkaði í forsetanum, því nú hugði hann gott til glóðarinnar að láta Besancenot og flokk hans leika sama hlutverk á vinstri vængnum og Le Pen lék árum saman á hægri kantinum: draga til sín atkvæði frá „stóra" flokknum sín megin og vera honum fjötur um fót.

Francois Hollande hafði að sjálfsögðu fulla ástæðu til að vera órólegur: fyrir utan allt annað þrífst Besancenot vitanlega á niðurlægingu sósíalista sem hafa ekki lengur neina sjálfstæða vinstri stefnu og sóa kröftunum í látlaust smákóngastríð.

En ekki er víst að forsetinn hafi mikla ástæðu til að gleðjast. Hann sér yfirleitt ekki mikið lengur en nef hans nær og það er til þess að gera fremur stutt; hætt er við að nýr tónn í frönskum stjórnmálum verði mishljómur í hans symfóníu.








Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×