Körfubolti

NBA: Pau Gasol hafði betur gegn litla bróður

Pau og Marc Gasol áttust við í fyrsta sinn í NBA deildinni í nótt
Pau og Marc Gasol áttust við í fyrsta sinn í NBA deildinni í nótt NordicPhotos/GettyImages

Sex leikir fóru fram í NBA deildinni í körfubolta í nótt. LA Lakers stöðvaði tveggja leikja taphrinu með 105-96 sigri á Memphis á útivelli, en þar hafði Pau Gasol betur gegn yngri bróður sínum Marc.

Þetta var í fyrsta sinn sem spænsku bræðurnir voru andstæðingar í alvöruleik, en það var Kobe Bryant sem var maður leiksins og skoraði 36 stig fyrir Lakers sem vann sigur með góðum endaspretti.

Pau Gasol skoraði 15 stig, hirti 7 fráköst og gaf 6 stoðsendingar, en bróðir hans hjá Memphis var með 8 stig og 7 fráköst. Rudy Gay var stigahæstu hjá Memphis með 23 stig og OJ Mayo var með 22 stig.

Orlando vann fimmta leikinn í röð með því að bursta Golden State 113-81. Jameer Nelson skoraði 22 stig fyrir Orlando og Rashard Lewis 21, en Jamal Crawford skoraði 18 stig fyrir Golden State.

Houston vann auðveldan útisigur á New Jersey 114-91. Yao Ming skoraði 24 stig og hirti 16 fráköst fyrir Houston en Keyon Dooling setti 17 stig fyrir heimamenn.

San Antonio vann öruggan sigur á Sacramento 101-85. Tony Parker skoraði 18 stig fyrir San Antonio en John Salmons 22 fyrir Sacramento.

Denver vann góðan sigur á keppinautum sínum í Portland í Norðvesturriðlinum 97-89 þrátt fyrir að vera án Carmelo Anthony sem mun missa af næstu tveimur leikjum vegna meiðsla.

Chauncey Billups skoraði 19 stig og gaf 10 stoðsendingar fyrir Denver og Nene var með 19 stig og 10 fráköst. LaMarcus Aldridge skoraði 20 stig fyrir Portland.

Loks vann Toronto langþráðan sigur þegar liðið skellti Clippers á útivelli 97-75 þar sem Chris Bosh skoraði 18 af 31 stigi sínu í fjórða leikhluta og Jermaine O´Neal skoraði 23 stig. Eric Gordon og Zach Randolph skoruðu 19 stig hvor fyrir Clippers og Baron Davis 16.

Staðan í NBA



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×