Körfubolti

Lakers jafnaði félagsmet - Tólf í röð hjá Boston

Kobe Bryant og félagar eru á mikilli siglingu rétt eins og meistarar Boston
Kobe Bryant og félagar eru á mikilli siglingu rétt eins og meistarar Boston NordicPhotos/GettyImages

LA Lakers jafnaði í nótt félagsmet þegar liðið vann sigur á Milwaukee í NBA deildinni. Liðið hefur unnið 17 af fyrstu 19 leikjum sínum í deildinni til þessa.

Lakers vann nokkuð auðveldan 105-92 sigur á Milwaukee og jafnaði þar með bestu byrjun félagsins í sögunni. Liðið byrjaði líka 17-2 árið 1985 og hefur ekki byrjað betur í 61 árs sögu félagsins.

Lakers gekk ekki sérlega vel í sóknarleiknum í nótt en góður varnarleikur skóp sigurinn. Kobe Bryant skoraði 20 stig og gaf 8 stoðsendingar, Derek Fisher skoraði 19 stig og Andrew Bynum skoraði 14 stig og hirti 14 fráköst. Varamaðurinn Joe Alexander skoraði mest hjá Milwaukee, 15 stig.

Tólf í röð hjá Boston

Meistarar Boston hafa ekki verið síðri það sem af er í vetur og unnu sinni 12. sigur í röð í nótt. Liðið þurfti þó framlengingu til að leggja Indiana Pacers á útivelli 122-117. Boston hefur unnið 20 af fyrstu 22 leikjum sínum.

Ray Allen skoraði 35 stig fyrir Boston í leiknum og setti sjö þrista, Kevin Garnett var með 17 stig og 20 fráköst og Paul Pierce skoraði 17 stig og fór upp fyrir Kevin McHale á stigalista Boston. Hann er nú fjórði stigahæsti leikmaður í sögu félagsins með 17,346 stig. Aðeins John Havlicek, Larry Bird og Robert Parish hafa skorað meira.

Marquis Daniels skoraði 26 stig fyrir Indiana og Danny Granger 20 stig. Indiana er annað þeirra tveggja liða sem hafa unnið Boston í vetur og var ekki langt frá því að endurtaka leikinn í nótt.

Portland gekk vel fyrir austan

Þá vann Portland nauman útisigur á Toronto 98-97 þar sem þristur frá Steve Blake tryggði gestunum sigurinn þegar skammt var til leiksloka. Jermaine O´Neal skoraði 24 stig fyrir Toronto og Chris Bosh 19 en LaMarcus Aldridge skoraði 20 fyrir Portland og Blake 19.

Þetta var fjórði sigur Portland á fimm leikja ferðalagi um Austurdeildina þar sem liðið tapaði aðeins fyrir Boston.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×