Daily Mirror hefur eftir Adriano Galliani, forseta AC Milan, að Brasilíumaðurinn Kaka sé falur fyrir 55 milljónir punda eða átta milljarða króna.
AC Milan er á eftir öðrum Brasilíumanni, Ronaldinho, en illa gengur að komast að samkomulagi um kaupverð við Barcelona þar sem Ronaldinho er á mála nú.
„Það er nóg að selja Kaka á 55 milljónir punda til að koma bókhaldinu í lag," er haft eftir Galliani.
Blaðið segir einnig að Ronaldinho verði keyptur fyrir 22 milljónir punda. AC Milan hefur gengið illa á leiktíðinni og á litla möguleika á að ná sæti sem veitir þátttökurétt í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.
Chelsea er talið vera áhugasamt um Kaka og miðað við þessar fréttir er ekki ólíklegt að liðið geri tilboð í hann.
Félagið gæti einnig boðið Didier Drogba í skiptum en hann er talinn vilja fara frá Chelsea í sumar. Drogba hefur einnig verið sterklega orðaður við Real Madrid.