Körfubolti

Detroit færði Lakers fyrsta tapið

Rasheed Wallace og Allen Iverson skoruðu samtals 50 stig fyrir Detroit í sigrinum á Lakers í nótt
Rasheed Wallace og Allen Iverson skoruðu samtals 50 stig fyrir Detroit í sigrinum á Lakers í nótt NordicPhotos/GettyImages

LA Lakers varð í nótt síðasta liðið til að tapa leik í NBA deildinni í vetur þegar liðið lá fyrir Detroit Pistons á heimavelli 106-95.

Þetta var áttundi sigur Detroit á Lakers í síðustu tíu leikjum liðanna, en Lakers liðið hafði unnið ellefu deildarleiki í röð í það heila ef talið er aftur á síðasta tímabil.

Rasheed Wallace var með 25 stig og 13 fráköst hjá Detroit og Allen Iverson skoraði sömuleiðis 25 stig. Kobe Bryant skoraði 29 stig fyrir Lakers og komst í 21. sæti yfir stigahæstu leikmenn allra tíma í deildinni.

Allen Iverson fór í 19. sætið og komst upp fyrir Elgin Baylor sem áður lék með Lakers. Iverson hefur skorað 21,156 stig á ferlinum.

Denver vann fjórða leikinn af fimm síðan Chauncey Billups gekk í raðir liðsins þegar það lagði Boston á útivelli 94-85. Boston hafði unnið sex síðustu viðureignir liðanna og þetta var aðeins þriðji sigur Denver í Boston í síðustu 19 heimsóknum sínum.

Chauncey Billups og Carmelo Anthony skoruðu 18 stig hvor fyrir Denver en Ray Allen skoraði 26 stig fyrir Boston og Paul Pierce 19.

San Antonio vann nauman sigur á grönnum sínum í Houston 77-75 og Phoenix vann nauman sigur á Sacramento í framlengingu 97-95 þar sem Shaquille O´Neal skoraði 29 stig, hirti 13 fráköst og gaf 6 stoðsendingar hjá Phoenix. John Salmons skoraði 21 stig fyrir Sacramento og Brad Miller var með 20 stig, 11 fráköst og 7 stoðsendingar.

New Orleans vann góðan sigur á Portland 87-82 í sjónvarpsleiknum á NBA TV, Milwaukee lagði Memphis 101-96 og Dallas tapaði sjöunda leiknum af níu þegar liðið lá heima fyrir Orlando 102-100.

Philadelphia lagði Indiana á útivelli 94-92, Charlotte lagði Utah 104-96, Miami lagði Washington 97-77, New Jersey færði Atlanta annað tapið í röð með 115-108 sigri og New York lagði Oklahoma 116-106.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×