Körfubolti

Friðrik Stefánsson spilar ekki í úrslitakeppninni

Friðrik Stefánsson
Friðrik Stefánsson

Njarðvíkingar hafa orðið fyrir mikilli blóðtöku í úrslitakeppninni, en ljóst er að fyrirliðinn Friðrik Stefánsson getur ekki spilað með liðinu í keppninni.

Áður hefur komið fram að Friðrik er með hjartagalla sem kallast hjartaflökt. Hann fékk grænt ljós til að spila vegna þessa eftir aðgerð fyrr í vetur, en fór að verða var við meinið aftur eftir samstuð í leik gegn Grindavík fyrir nokkru.

Friðrik fer til læknis í dag þar sem hann fær að vita meira um ástand sitt, en ljóst þykir að hann þarf að gangast aftur undir aðgerð.

Það er því ljóst að mikil óvissa ríkir um framhaldið hjá landsliðsmanninum.

Teitur Örlygsson þjálfari Njarðvíkur segir þetta vitanlega mikið áfall fyrir liðið á þessum tímapunkti, en það mætir Snæfelli í fyrstu umferð úrslitakeppninnar á laugardaginn.

"Aðalmálið er að hann jafni sig en ég efast um að læknirinn gefi grænt ljós á að hann verði meira með í vetur," sagði Teitur í samtali við Víkurfréttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×