Að læra af hruni Árni Páll Árnason skrifar 12. mars 2009 06:00 Eftir stórfellt efnahagshrun stöndum við á miklum tímamótum. Við verðum að byggja endurreisn á hreinskiptnu uppgjöri við fortíðina og raunsæu mati á því sem aflaga fór. Við þurfum betri og skilvirkari stjórnsýslu, skýrari ábyrgð í stjórnmálum, agaðri viðmið í rekstri og fjármálalífi og heilbrigðari umgjörð fyrir opin og fordómalaus skoðanaskipti. En áður en lengra er haldið er óhjákvæmilegt að horfa til baka og freista þess að greina nokkra höfuðveikleika sem leiddu til þess hruns sem við höfum nú upplifað. Það má segja að við höfum lengi vitað að íslenskt bankakerfi væri of stórt miðað við stærð þjóðarbúsins og einkum stærð gjaldmiðilsins. Það var líka vitað að efnahagslegur uppgangur áranna 2003-2007 var að mestu leyti byggður á óhóflegri skuldasöfnun, en ekki á aukningu í verðmætasköpun hér á landi. Jón Sigurðsson, hagfræðingur og fyrrum bankastjóri og ráðherra orðaði þetta afskaplega skýrt í formála að efnahagsstefnu Samfylkingarinnar í apríl 2007 þegar sem hann varaði við ójafnvægi í íslenskum þjóðarbúskap og benti á þær hættur sem þetta ástand gæti skapað, eins og síðar kom fram: „Hættan er sú að Ísland missi trúverðugleika á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, en þá væri voðinn vís með hækkandi vaxtaálagi, gengisfalli og verðbólgugusu." En hvers vegna varð þessi þekking ekki til þess að menn brygðust við? Hér verður leitast við að benda á nokkra þætti sem skýra það. Veikleikar í stjórnkerfi Fyrst ber að nefna veikleika í stjórnskipan og stjórnsýslu. Ríkisstjórn er samkvæmt íslenskri stjórnskipan ekki fjölskipað stjórnvald. Í því felst að hver ráðherra fer með ákvörðunarvald á eigin málasviði. Þetta leiðir til mikils ráðherraræðis og lítillar samhæfingar stjórnsýslunnar þvert á ráðuneyti. Verkstjórnarvald forsætisráðherra er takmarkað í reynd og byggist meira á áhrifavaldi hans en beinu stjórnarfarslegu forræði hans á málum einstakra ráðuneyta. Af því leiðir að stjórnsýslan er afar illa í stakk búin að takast á við mál sem snerta fleiri en eitt ráðuneyti. Hefðbundin sýn á stjórnsýsluna er að hún sé valdatæki ráðherra til að koma ákvörðunum þeirra í framkvæmd. Það er hún vissulega, en ekki síður er hún þekkingarsamfélag. Starfslið stjórnsýslunnar þarf að búa yfir nauðsynlegri þekkingu og færni til að veita stjórnmálamönnum ráðgjöf, svo þeir geti tekið upplýstar ákvarðanir. Þess vegna þarf stjórnsýslan að hafa faglega getu til að meta hættur og leggja sjálfstætt mat á æskileg viðbrögð. Stjórnmálamenn geta ekki og eiga ekki að hafa sérfræðiþekkingu til að meta kosti og galla aðgerða eða aðgerðaleysis með slíkum hætti, því þeir eiga fyrst og síðast að taka pólitískar ákvarðanir með hagsmuni umbjóðenda sinna að leiðarljósi. Þess vegna þarf öfluga stjórnsýslu sem hefur það hlutverk að vara við, meta áhættu og marka stefnu. Íslensk stjórnsýsla er mjög vanbúin að þessu leyti. Engin starfseining stjórnarráðsins fer með stefnumörkun í opinberri þjónustu eða greinir þjónustu út frá hagsmunum þeirra sem hana eiga að nota. Afleiðingin er að við veitum opinbera þjónustu en vitum óþægilega lítið um hvernig hún nýtist, um viðhorf notenda eða hvort hægt væri að ná sama eða betri árangri með öðrum aðferðum. Þar við bætist að í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins hefur skipulega verið vegið að faglegu sjálfstæði stjórnsýslunnar. Þetta hefur verið gert með ýmsum hætti. Gagnrýni á frumkvæði af hálfu embættismanna hefur verið áberandi. Alþekkt er að fyrrum forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins tíðkaði að hringja í embættismenn í ýmsum ráðuneytum með aðfinnslur við störf þeirra, trúr þeirri stefnu sinni að skilja hvergi eftir pappírsslóð til sönnunar misbeitingu valda sinna. Á sama tíma voru flokksmenn ráðnir í lykilstöður og þar með dregið úr sjálfstæði þeirra embættismanna sem fyrir voru. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að leggja niður Þjóðhagsstofnun, í kjölfar þess að stofnunin gagnrýndi efnahagsstefnu stjórnvalda, var sérstaklega skýrt dæmi um skoðanakúgun af hálfu stjórnvalda gagnvart opinberum starfsmönnum. Með þeirri ákvörðun var endanlega tryggt að engin sjálfstæð stofnun, ótengd hagsmunaaðilum, gæti lagt mat á sjálfbærni grundvallarstærða í efnahagslífinu og endurmetið efnahagsstefnuna. Ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks nýtti tækifærið og hagaði hagstjórn á árabilinu 2003-2007 með þeim hætti að helst verður líkt við eitt samfellt stórslys. Annað atriði þessu tengt er stofnanaumgjörð fjármálakerfisins. Fjármálaeftirlitið (FME) hafði með höndum mat á stöðu bankanna en hafði ekki með höndum mat á fjármálalegum stöðugleika eða sjálfbærni bankakerfisins. Starfsemi FME takmarkaðist alla tíð af þeim vanda að bankarnir kepptust um að slíta þaðan besta fólkið og því átti stofnunin erfitt með að byggja upp fullnægjandi þekkingu og hæfni til að hafa raunveruleg tök á hinum eftirlitsskyldu aðilum. Mat á fjármálalegum stöðugleika var á hendi Seðlabankans. Grundvallarforsenda flotgengisfyrirkomulagsins frá 2001 var að Seðlabankanum var tryggt sjálfstæði að lögum. Stórlega var vegið að því sjálfstæði með skipun pólitísks leiðtoga ríkisstjórnarinnar í embætti seðlabankastjóra árið 2005. Eftir það var ljóst að bankinn myndi ekki komast að neinni niðurstöðu um fjármálalegan stöðugleika sem ekki samrýmdist margítrekuðum skoðunum aðalbankastjórans á efnahagsmálum. Nefna má sem dæmi að frá árinu 2006 fjölgaði mjög þeim álitsgjöfum sem veltu upp þeirri spurningu hvort bankakerfið gæti starfað til lengdar með íslenska krónu sem gjaldmiðil og bankarnir tóku sjálfir að setja fram efasemdir í þá átt. Þegar leið fram á árið 2007 varð þessi skoðun ráðandi meðal hagfræðinga, svo ekki minnst á þróunina á árinu 2008. Ekki er hægt að benda á eina einustu úttekt Seðlabankans á sjálfbærni bankakerfisins og stöðu gjaldmiðilsins á þessu tímabili. Sérfræðingar bankans tjáðu hins vegar í eigin nafni í erindum og fyrirlestrum skoðanir sem ekki var hægt að skilja öðruvísi en að þeir hefðu umtalsverðar efasemdir um framtíðarhorfur íslensku krónunnar. En FME gat auðvitað ekki eitt og sér markað stefnu um útþenslu bankanna. Aftur beinast því böndin að stjórnsýslu stjórnarráðsins, sem virðist hafa blindast af oftrú á því regluverki sem gilti um bankakerfið og leiddi af EES-samningnum. Nátengd þeirri oftrú er sú hugmyndafræðilega meinloka að hlutverk ríkisins sé ekki að hafa skýra sýn um hlutverk eða stærð bankakerfisins, frekar en annarra atvinnugreina. Staðreyndin er auðvitað allt önnur. Ríkið á að hafa atvinnustefnu - jafn bankastefnu sem aðra stefnu. Reyndar er það svo að ríkari rök eru fyrir opinberri stefnumörkun um stærð og fjármögnun bankakerfisins en nokkra aðra atvinnustarfsemi, í ljósi þess að ríkið ber óbeint ábyrgð á bankakerfinu. Ríkisvaldið hefur fjölþætt úrræði, hvort heldur er við framkvæmd fjármálaeftirlits eða í stjórnun peningamála, til að takmarka eða stýra vexti banka í hagfelldar áttir. Stjórnsýsla sem skynjar ekki þörf á stefnumörkun að þessu leyti og afneitar vandamálum tengdum gjaldmiðlinum flýtur óhjákvæmilega að feigðarósi. Fagleg einangrun íslenskrar stjórnsýslu á líka stóran þátt í efnahagshruninu og því hversu víðtækar afleiðingar þess voru. Margt er enn óljóst um samskipti íslenskra ráðamanna og stjórnenda Seðlabankans við erlenda kollega. Heildstætt mat á því hver vissi hvað og hvenær verður að bíða þess að sú mynd verði endanlega ljós. Hitt er þó ljóst að þar sem Ísland er ekki aðili að Evrópusambandinu lýtur íslensk stjórnsýsla ekki sambærilegs aga eða aðhalds og stjórnsýsla ESB-ríkja. Þetta kom skýrt fram í aðdraganda hrunsins. Í útskrift af frægu símtali Alistair Darling og Árna M. Mathiesen má sjá að símtalið hefst á því að þessir kollegar kynna sig hvor fyrir öðrum. Samt hefur sá þeirra sem skemur hafði setið í embætti - Darling - setið í stóli fjármálaráðherra í 15 mánuði þegar þarna er komið sögu. Ef Ísland hefði verið aðili að Evrópusambandinu hefðu þessir menn í það minnsta hist 15 sinnum þegar þetta símtal fór fram, á mánaðarlegum fundum fjármálaráðherra aðildarríkjanna. Þá er líka ljóst að staða bankakerfisins hér á landi hefði verið umræðuefni á öllum þessum fundum og aðgerðir til að styðja við fjármálalegan stöðugleika á Íslandi. Þess í stað voru stjórnvöld í grannlöndum okkar illa upplýst um stöðuna og aðstoðar þeirra hafði aldrei verið leitað með skilvirkum hætti. Sama nesjamennska einkenndi að sínu leyti kynningu stjórnvalda á neyðarlögunum. Hvernig dettur mönnum í hug að setja neyðarlög, biðja Guð að blessa þjóðina, en taka ekki einu sinni upp síma til að upplýsa nánustu nágrannaríki, sem mest urðu fyrir barðinu á bankahruninu, um aðgerðirnar og um afleiðingar þeirra á hagsmuni annarra ríkja? Aðild að Evrópusambandinu hefði sannanlega tryggt allt aðra faglega umgjörð um starf íslenskra stjórnvalda að því að tryggja fjármálastöðugleika. Veikleikar í samfélagsgerðinni Við þurfum að horfa á fleiri þætti í okkar eigin framgöngu. Við tókum - flest - gagnrýnislítinn þátt í samstöðu um fjármálaútrás sem var hins vegar mjög viðkvæm fyrir sveiflum í eignaverði og aðgangi að erlendu fjármagni. Hollt er að minnast þess að í kosningabaráttunni 2007 mæltu Sjálfstæðismenn gegn aðild að ESB með þeim rökum að hagvöxtur væri mun meiri hér á landi en í ESB-löndum. Þannig duttu menn í þá gildru að bera saman falskan hagvöxt - tilbúinn með innistæðulausum skattalækkunum, erlendri lántöku og alltof sterku gengi - við sjálfbæran hagvöxt í öðrum ríkjum, sem byggður var í ríkari mæli á raunverulegri verðmætaaukningu. Það er rík hjarðhugsun í okkur Íslendingum og okkur veitist alltof létt að gera lítið með málefnalega gagnrýni útlendinga og afskrifa hana sem öfund eða úrtölur. Okkur er líka alltof gjarnt að leita töfralausna og hlífa okkur við að taka hið súra með því sæta. Umræða síðustu ára um að íslensku bankarnir og íslenska hagkerfið lyti allt öðrum lögmálum en hagkerfi og bankar í öðrum löndum er þannig nákvæmlega sömu ættar og sú lítt veruleikatengda uppfinningasemi síðustu mánaða að ætla að taka upp evru einhliða eða flýja í faðm Noregskonungs og krónu hans - eða að fresta því nú að taka nauðsynlegar ákvarðanir um framtíðarstefnu í peningamálum. Og síðast en ekki síst virðumst við aldrei hafa þrek til öfgalausrar greiningar á umfangsmiklum vandamálum sem kalla á málefnalega samræðu, skipulegt verklag og öguð vinnubrögð. Eitt er enn vantalið og það er veikleiki okkar í málefnalegri, gagnrýninni og hreinskiptinni umræðu. Kannski veldur fámennið hér því að okkur veitist oft erfitt að segja sannleikann hverju um annað og gagnrýna hugmyndir og viðhorf af heiðarleika. Við þekkjum öll hversu erfitt það er að segja samstarfsmönnum og - konum sannleikann um hæfni þeirra og getu. Við eigum líka erfitt, í opinberri umræðu, með að skilja að málefnalega gagnrýni á verk og hugmyndir og viðhorf fólks og svo gagnrýni og árásir á það sjálft og persónu þess. Afleiðingin er hugmyndaleg leti og gagnrýnislaus vanahugsun, samhliða því að skjallbandalög ráða oft meiru um framgang fólks og hugmynda en hæfni þess eða gildi hugmyndanna. Veikleikar í efnahagsgrundvelli Sú mikla skuldsetning sem varð íslenskum bönkum og fyrirtækjum að falli er ekki séríslenskt fyrirbæri. Sambærileg vandamál eru nú að koma upp víða um hinn vestræna heim. Fyrirtæki á Vesturlöndum tóku oft lán á lágum vöxtum í lágvaxtamyntum, með afar áþekkum hætti og fjölmörg heimili þekkja. Lánin voru svo notuð til fjárfestinga á þeim tímum sem eignaverð var í algeru hámarki um öll Vesturlönd. Við áföll lækkar eignaverðið hratt, gengi heimagjaldmiðilsins veikist og á sama tíma styrkist gengi lágvaxtamyntanna og vextir þar hækka. Við það sporðreisist í einni svipan sú áferðarfallega jafna sem lá til grundvallar eignamyndun sem byggð var erlendri lántöku. En vandinn hér á landi varð stærri vegna þess hversu stórir bankarnir voru orðnir í samanburði við þjóðarbúið. Eigendur áttu oft einnig fyrirtækin keyptu önnur fyrirtæki og sömu aðilar gátu setið allt í kringum borðið og hagnast á sömu viðskiptunum frá mörgum hliðum. Þá voru bankarnir sannanlega mjög útlánaglaðir. Íslensk fyrirtæki tóku einnig mjög virkan þátt í þessari eignabólu og skuldsettu sig til fjárfestinga í öðrum og oft óskyldum rekstri. Það er eðlilega spurt hvað veldur þessari miklu áhættusækni íslenskra fyrirtækja? Er það einhver sérstök útrásargleði sem á rætur djúpt í þjóðarsálinni? Ekkert bendir til þess. Nærtækari skýring er efalaust sú saga efnahagslegs óstöðugleika sem einkennt hefur íslenskt þjóðlíf. Rekstraraðilar hér á landi hafa aldrei getað reiknað með stöðugu rekstrarumhverfi að neinu leyti. Það eina sem hefur verið stöðugt er óstöðugleikinn. Há verðbólga og miklar gengissveiflur valda óbærilegri óvissu um grundvallarforsendur í rekstri hvers fyrirtækis. Ganga má svo langt að segja að almenn viðmið um arðsemi og hagkvæmni í rekstri hafi enga sérstaka þýðingu við þessar aðstæður. Hvers vegna á forstjóri fyrirtækis að leggja orku og mikla vinnu í skipulagsbreytingar og þjálfun starfsfólks sem skilar kannski 2-3% sparnaði í starfsmannahaldi, þegar gengissveiflur þurrka út í einni svipan allan rekstrarhagnað ársins og meira til? Hvernig á að reikna forsendur í fasteignarekstri, sem eðli málsins samkvæmt er rekstur sem á að skila litlum en stöðugum hagnaði á mörgum áratugum? Krónan og óstöðugleiki hennar ýtir þannig undir áhættusækni og skammtímahugsun í atvinnulífinu og dregur þrótt úr þeim atvinnugreinum sem ættu að vera áhættuminni og byggja á lítilli en stöðugri framlegð og traustri framtíðarsýn. Á engum bitnar þetta ver en á landsbyggðinni, þar sem atvinnustarfsemi er almennt viðkvæmari fyrir áföllum og getur helst búið að því samkeppnisforskoti að bjóða upp á stöðugra rekstrarumhverfi og minni starfsmannaveltu. Þá ber ekki að vanmeta þátt ofurlaunakerfa bankanna í hruninu. Eftir að lánskjör bankanna á erlendum mörkuðum tóku dýfu á árinu 2006 mælti flest með auknu aðhaldi í rekstri þeirra og meiri hófsemi í erlendum skuldbindingum þeirra. Niðurstaðan varð hins vegar þveröfug og áfram var haldið að auka við útþenslu erlendis. Ekki verður betur séð en að árangurstengingar í launum stjórnenda bankanna hafi hvatt til frekari útþenslu, frekar en til hófsemi í útlánum. Launakerfið hafi þannig hvatt stjórnendur til að halda áfram skuldsettri útrás, þegar hagsmunir þjóðarinnar voru frekar þeir að dregið yrði úr áhættu og skuldsetningu. Ekki verður séð að FME hafi metið þessa áhættu með fullnægjandi hætti í eftirliti þess með bönkunum. Það hlýtur að vera grundvallaratriði fyrir fjármálalegan stöðugleika að launakerfi stjórnenda sé ekki á þann veg úr garði gert að það verðlauni áhættuhegðun en hegni mönnum fyrir fyrirhyggju og varkárni. Veikleikar í stjórnmálakerfinu Stjórnmálin eru ekki laus við sök í aðdraganda hrunsins. Eitt er það að stjórnsýslan var ekki nógu sterk og sjálfstæð til að vara við og leggja sjálfstætt mat á hættur, eins og fyrr var rakið. Hitt er að stjórnmálaflokkar læstust inni í hringrás gagnkvæms aðgerðaleysis á örlagatímum. Samfylkingin taldi strax fyrir kosningar 2007 ljóst að efnahagskerfi landsins gæti ekki búið við íslenska krónu til lengri tíma litið og að aðild að Evrópusambandinu væri því óhjákvæmileg. Enginn annar stjórnmálaflokkur féllst á þau rök. Við stjórnarmyndun 2007 var ákveðið að byggja áfram á EES-samningnum en spurningin um aðild átti að vera til stöðugs endurmats í ljósi hagsmuna landsins. Fljótt varð ljóst að samstarfsflokkurinn túlkaði þetta svo að aðild að Evrópusambandinu væri ekki til umræðu á kjörtímabilinu og eftir því sem hagsmunir landsins af aðild urðu augljósari, fjölgaði þeim Sjálfstæðismönnum sem lögðust gegn aðild að því virðist á hugsjónalegum forsendum. Eftir á að hyggja voru það mistök af hálfu Samfylkingarinnar að láta ekki brjóta á Evrópusambandsaðild vorið 2007. Þá hefði Sjálfstæðisflokkurinn verið tilneyddur að mynda stjórn með öðrum flokki og slíkt afturhaldsbandalag hefði þá borið skýra og augljósa ábyrgð á verkleysi í gjaldmiðilsmálum. Það er líka sérstakt áhyggjuefni að eftir því sem seig á ógæfuhliðina á árinu 2007 og í upphafi árs 2008 skyldi stjórnmálakerfið vera ófært um að taka á vandamálinu hratt og hefja aðildarumsóknarferli. Allflestir hagfræðingar og hagsmunaaðilar í atvinnulífi voru orðnir sammála þegar þarna var komið sögu um að aðild að ESB væri eina aðgerðin sem skapað gæti nauðsynlegan stöðugleika og dregið úr áhættu af hruni bankakerfisins. Samt hjakkaði stjórnmálaumræðan í sömu hjólförunum og sömu útúrsnúningar og rangtúlkanir einkenndu umræðuna sem fyrr. Að læra af reynslunni Í ljósi þessarar greiningar er framtíðarsýnin skýr. Við þurfum fjölbreytt, opið og lýðræðislegt samfélag. Við höfum ekki efni á að skipa ekki besta fólkinu til starfa í hverri stétt. Við þurfum að ljúka tímabili þöggunar, meðvirkni og skjallbandalaga. Við þurfum hreinskiptna og óvægna umræðu um kost og löst á hverju máli og á hverri hugmynd. Við þurfum að breyta stjórnarskrá og gera ríkisstjórnina að einu stjórnvaldi. Þá þurfa allir ráðherrar að axla ábyrgð af öllum ákvörðunum ríkisstjórnar. Slíkt skýrir pólitíska ábyrgð og gerir kjósendum betur kleift að tengja saman orð og athafnir. Það er komið nóg af ríkisstjórnum með tvær stefnur í álversmálum og hvalveiðimálum, með tilheyrandi hráskinnaleik og óljósri ábyrgð gagnvart kjósendum. Það er komið nóg af því að einn ráðherra misfari með veitingavald og þvingi samt í reynd aðra ráðherra til að axla samábyrgð af lögleysu og valdníðslu. Við þurfum eina ríkisstjórn með eitt markmið en ekki tólf ráðherra sem halda að þeir séu tólf sólir í tólf sjálfstæðum sólkerfum. Í kjölfarið þarf að brjóta niður múra milli ráðuneyta og afnema þannig smákóngavald sem hamlar skipulegu starfi og árangri í opinberri stefnumörkun. Styrkja þarf forsætisráðuneytið verulega og fela því stefnumörkunarhlutverk og yfirstjórn allrar lagasmíðar á vettvangi stjórnarráðsins. Styrkja þarf sjálfstæði embættismanna í stjórnsýslunni. Afnema þarf algerlega pólitískar ráðningar. Taka á ráðningavald úr höndum ráðherra og fela það nýrri starfsmannaskrifstofu í stjórnarráðinu sem lúti þingkjörinni yfirstjórn og utanaðkomandi eftirliti. Dómara á að skipa af ríkisstjórn í heild sameiginlega og skipan þeirra að vera staðfest af 3/5 hluta þings. Hin nýja starfsmannaskrifstofa á einnig að vera ábyrg fyrir því að fullnægjandi þekking og reynsla sé tiltæk í stjórnsýslunni á hverjum tíma, þar á meðal á áhættumati og árangursstjórnun. Gera þarf embættismönnum skylt að gera mat á áhættu af stöðu mála á verkefnasviði þeirra og leggja þannig grunn að upplýstum ákvörðunum um viðbrögð við hættu. Styrkja þarf faglegan aga í stjórnsýslunni með aðild að Evrópusambandinu og auknu návígi íslenskra embættismanna og ráðherra við kollega í öðrum löndum. Endurreisa þarf Þjóðhagsstofnun til að sinna því hlutverki að veita faglega og óháða ráðgjöf um efnahagsmál, með enn skýrari hætti en hún þó gerði á sínum tíma. Jafnframt þarf að verja faglegt sjálfstæði Seðlabankans fyrir hinu pólitíska valdi og gera honum þannig kleift að leggja sjálfstætt og heildstætt mat á fjármálastöðugleika og þau atriði sem ógna honum. Leggja þarf grunn fyrir langtímasjónarmið í efnahagsmálum, draga úr áhættusækni og gera fyrirtækjum kleift að taka ákvarðanir og gera áætlanir til lengri tíma. Grundvallaratriði í því efni er aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru sem gjaldmiðils. Stefnumörkun þar um þolir enga bið. Með lægri vöxtum og auknum gengisstöðugleika skapast loks tækifæri hér á landi fyrir ýmsan áhættulítinn rekstur með litla en stöðuga hagnaðarvon. Efla þarf Fjármálaeftirlitið og fá þar til starfa erlenda sérfræðinga fyrst um sinn. Setja þarf almenna launastefnu í nýju bönkunum sem komi í veg fyrir ofurlaunaþrýsting. Jafnframt þarf að tryggja að afkastahvetjandi launakerfi í bönkum verðlauni ekki einungis útþenslu heldur einnig ábyrgð, aga og aðhald. Stjórnmálastarf þarf að endurhugsa í ljósi nývaknaðs áhuga á milliliðalausri þátttöku. Kosningalög þurfa að endurspegla rétt fólks til persónukjörs innan ramma flokkslistavals. Við verðum að varast þær hættur sem felast í fyrirframgefnum niðurstöðum, þöggun og innpökkuðum stjórnmálalausnum. Við þurfum þvert á móti að brjóta stjórnmálunum leið út úr bakherbergjunum og ýta þeim fram í dagsljósið. Til þess þurfum við að læra að binda saman kosti umræðu og skoðanaskipta og þann heiðarleika og hreinskiptni sem er nauðsynleg forsenda siðlegs samfélags. Höfundur er alþingismaður. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Árni Páll Árnason Mest lesið Er sjávarútvegur einkamál kvótakónga? Finnbjörn A. Hermannsson Skoðun Ísland er ekki stjórntækt með verðtryggingu? Örn Karlsson Skoðun „Þetta er algerlega galið“ Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Ó Palestína Arnar Eggert Thoroddsen Skoðun Að þora að stíga skref Magnús Þór Jónsson Skoðun Vinnulag í rannsóknaverkefnum er ekki vísbending um stjórnarhætti þess sem borgar Haraldur Ólafsson Skoðun Hvernig getum við stigið upp úr sorginni? Birna Guðný Björnsdóttir Skoðun Fersk fyrirheit: máttur nýársheita og skýrra markmiða Árni Sigurðsson Skoðun Er þetta alvöru? Bjarni Karlsson Skoðun Skoðun Skoðun Að þora að stíga skref Magnús Þór Jónsson skrifar Skoðun Ísland er ekki stjórntækt með verðtryggingu? Örn Karlsson skrifar Skoðun Ó Palestína Arnar Eggert Thoroddsen skrifar Skoðun Er sjávarútvegur einkamál kvótakónga? Finnbjörn A. Hermannsson skrifar Skoðun „Þetta er algerlega galið“ Hjörtur J. Guðmundsson skrifar Skoðun Hvernig getum við stigið upp úr sorginni? Birna Guðný Björnsdóttir skrifar Skoðun Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson skrifar Skoðun Vinnulag í rannsóknaverkefnum er ekki vísbending um stjórnarhætti þess sem borgar Haraldur Ólafsson skrifar Skoðun Fersk fyrirheit: máttur nýársheita og skýrra markmiða Árni Sigurðsson skrifar Skoðun Skilaboð hátíðarinnar Skúli S. Ólafsson skrifar Skoðun Er þetta alvöru? Bjarni Karlsson skrifar Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir skrifar Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir skrifar Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson skrifar Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson skrifar Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson skrifar Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson skrifar Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson skrifar Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson skrifar Skoðun „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð skrifar Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt skrifar Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir skrifar Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson skrifar Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir skrifar Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson skrifar Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir skrifar Skoðun Þegar Samtök verslunar og þjónustu vita betur Erna Bjarnadóttir skrifar Skoðun Dans verkalýðsleiðtoga í kringum gullkálfinn Ole Anton Bieltvedt skrifar Skoðun Jól í sól versus jóla í dimmu Matthildur Björnsdóttir skrifar Skoðun Mikilvægi samgöngusáttmála fyrir Vestfirði Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir,Unnar Hermannsson,Halldór Halldórsson skrifar Sjá meira
Eftir stórfellt efnahagshrun stöndum við á miklum tímamótum. Við verðum að byggja endurreisn á hreinskiptnu uppgjöri við fortíðina og raunsæu mati á því sem aflaga fór. Við þurfum betri og skilvirkari stjórnsýslu, skýrari ábyrgð í stjórnmálum, agaðri viðmið í rekstri og fjármálalífi og heilbrigðari umgjörð fyrir opin og fordómalaus skoðanaskipti. En áður en lengra er haldið er óhjákvæmilegt að horfa til baka og freista þess að greina nokkra höfuðveikleika sem leiddu til þess hruns sem við höfum nú upplifað. Það má segja að við höfum lengi vitað að íslenskt bankakerfi væri of stórt miðað við stærð þjóðarbúsins og einkum stærð gjaldmiðilsins. Það var líka vitað að efnahagslegur uppgangur áranna 2003-2007 var að mestu leyti byggður á óhóflegri skuldasöfnun, en ekki á aukningu í verðmætasköpun hér á landi. Jón Sigurðsson, hagfræðingur og fyrrum bankastjóri og ráðherra orðaði þetta afskaplega skýrt í formála að efnahagsstefnu Samfylkingarinnar í apríl 2007 þegar sem hann varaði við ójafnvægi í íslenskum þjóðarbúskap og benti á þær hættur sem þetta ástand gæti skapað, eins og síðar kom fram: „Hættan er sú að Ísland missi trúverðugleika á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, en þá væri voðinn vís með hækkandi vaxtaálagi, gengisfalli og verðbólgugusu." En hvers vegna varð þessi þekking ekki til þess að menn brygðust við? Hér verður leitast við að benda á nokkra þætti sem skýra það. Veikleikar í stjórnkerfi Fyrst ber að nefna veikleika í stjórnskipan og stjórnsýslu. Ríkisstjórn er samkvæmt íslenskri stjórnskipan ekki fjölskipað stjórnvald. Í því felst að hver ráðherra fer með ákvörðunarvald á eigin málasviði. Þetta leiðir til mikils ráðherraræðis og lítillar samhæfingar stjórnsýslunnar þvert á ráðuneyti. Verkstjórnarvald forsætisráðherra er takmarkað í reynd og byggist meira á áhrifavaldi hans en beinu stjórnarfarslegu forræði hans á málum einstakra ráðuneyta. Af því leiðir að stjórnsýslan er afar illa í stakk búin að takast á við mál sem snerta fleiri en eitt ráðuneyti. Hefðbundin sýn á stjórnsýsluna er að hún sé valdatæki ráðherra til að koma ákvörðunum þeirra í framkvæmd. Það er hún vissulega, en ekki síður er hún þekkingarsamfélag. Starfslið stjórnsýslunnar þarf að búa yfir nauðsynlegri þekkingu og færni til að veita stjórnmálamönnum ráðgjöf, svo þeir geti tekið upplýstar ákvarðanir. Þess vegna þarf stjórnsýslan að hafa faglega getu til að meta hættur og leggja sjálfstætt mat á æskileg viðbrögð. Stjórnmálamenn geta ekki og eiga ekki að hafa sérfræðiþekkingu til að meta kosti og galla aðgerða eða aðgerðaleysis með slíkum hætti, því þeir eiga fyrst og síðast að taka pólitískar ákvarðanir með hagsmuni umbjóðenda sinna að leiðarljósi. Þess vegna þarf öfluga stjórnsýslu sem hefur það hlutverk að vara við, meta áhættu og marka stefnu. Íslensk stjórnsýsla er mjög vanbúin að þessu leyti. Engin starfseining stjórnarráðsins fer með stefnumörkun í opinberri þjónustu eða greinir þjónustu út frá hagsmunum þeirra sem hana eiga að nota. Afleiðingin er að við veitum opinbera þjónustu en vitum óþægilega lítið um hvernig hún nýtist, um viðhorf notenda eða hvort hægt væri að ná sama eða betri árangri með öðrum aðferðum. Þar við bætist að í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins hefur skipulega verið vegið að faglegu sjálfstæði stjórnsýslunnar. Þetta hefur verið gert með ýmsum hætti. Gagnrýni á frumkvæði af hálfu embættismanna hefur verið áberandi. Alþekkt er að fyrrum forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins tíðkaði að hringja í embættismenn í ýmsum ráðuneytum með aðfinnslur við störf þeirra, trúr þeirri stefnu sinni að skilja hvergi eftir pappírsslóð til sönnunar misbeitingu valda sinna. Á sama tíma voru flokksmenn ráðnir í lykilstöður og þar með dregið úr sjálfstæði þeirra embættismanna sem fyrir voru. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að leggja niður Þjóðhagsstofnun, í kjölfar þess að stofnunin gagnrýndi efnahagsstefnu stjórnvalda, var sérstaklega skýrt dæmi um skoðanakúgun af hálfu stjórnvalda gagnvart opinberum starfsmönnum. Með þeirri ákvörðun var endanlega tryggt að engin sjálfstæð stofnun, ótengd hagsmunaaðilum, gæti lagt mat á sjálfbærni grundvallarstærða í efnahagslífinu og endurmetið efnahagsstefnuna. Ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks nýtti tækifærið og hagaði hagstjórn á árabilinu 2003-2007 með þeim hætti að helst verður líkt við eitt samfellt stórslys. Annað atriði þessu tengt er stofnanaumgjörð fjármálakerfisins. Fjármálaeftirlitið (FME) hafði með höndum mat á stöðu bankanna en hafði ekki með höndum mat á fjármálalegum stöðugleika eða sjálfbærni bankakerfisins. Starfsemi FME takmarkaðist alla tíð af þeim vanda að bankarnir kepptust um að slíta þaðan besta fólkið og því átti stofnunin erfitt með að byggja upp fullnægjandi þekkingu og hæfni til að hafa raunveruleg tök á hinum eftirlitsskyldu aðilum. Mat á fjármálalegum stöðugleika var á hendi Seðlabankans. Grundvallarforsenda flotgengisfyrirkomulagsins frá 2001 var að Seðlabankanum var tryggt sjálfstæði að lögum. Stórlega var vegið að því sjálfstæði með skipun pólitísks leiðtoga ríkisstjórnarinnar í embætti seðlabankastjóra árið 2005. Eftir það var ljóst að bankinn myndi ekki komast að neinni niðurstöðu um fjármálalegan stöðugleika sem ekki samrýmdist margítrekuðum skoðunum aðalbankastjórans á efnahagsmálum. Nefna má sem dæmi að frá árinu 2006 fjölgaði mjög þeim álitsgjöfum sem veltu upp þeirri spurningu hvort bankakerfið gæti starfað til lengdar með íslenska krónu sem gjaldmiðil og bankarnir tóku sjálfir að setja fram efasemdir í þá átt. Þegar leið fram á árið 2007 varð þessi skoðun ráðandi meðal hagfræðinga, svo ekki minnst á þróunina á árinu 2008. Ekki er hægt að benda á eina einustu úttekt Seðlabankans á sjálfbærni bankakerfisins og stöðu gjaldmiðilsins á þessu tímabili. Sérfræðingar bankans tjáðu hins vegar í eigin nafni í erindum og fyrirlestrum skoðanir sem ekki var hægt að skilja öðruvísi en að þeir hefðu umtalsverðar efasemdir um framtíðarhorfur íslensku krónunnar. En FME gat auðvitað ekki eitt og sér markað stefnu um útþenslu bankanna. Aftur beinast því böndin að stjórnsýslu stjórnarráðsins, sem virðist hafa blindast af oftrú á því regluverki sem gilti um bankakerfið og leiddi af EES-samningnum. Nátengd þeirri oftrú er sú hugmyndafræðilega meinloka að hlutverk ríkisins sé ekki að hafa skýra sýn um hlutverk eða stærð bankakerfisins, frekar en annarra atvinnugreina. Staðreyndin er auðvitað allt önnur. Ríkið á að hafa atvinnustefnu - jafn bankastefnu sem aðra stefnu. Reyndar er það svo að ríkari rök eru fyrir opinberri stefnumörkun um stærð og fjármögnun bankakerfisins en nokkra aðra atvinnustarfsemi, í ljósi þess að ríkið ber óbeint ábyrgð á bankakerfinu. Ríkisvaldið hefur fjölþætt úrræði, hvort heldur er við framkvæmd fjármálaeftirlits eða í stjórnun peningamála, til að takmarka eða stýra vexti banka í hagfelldar áttir. Stjórnsýsla sem skynjar ekki þörf á stefnumörkun að þessu leyti og afneitar vandamálum tengdum gjaldmiðlinum flýtur óhjákvæmilega að feigðarósi. Fagleg einangrun íslenskrar stjórnsýslu á líka stóran þátt í efnahagshruninu og því hversu víðtækar afleiðingar þess voru. Margt er enn óljóst um samskipti íslenskra ráðamanna og stjórnenda Seðlabankans við erlenda kollega. Heildstætt mat á því hver vissi hvað og hvenær verður að bíða þess að sú mynd verði endanlega ljós. Hitt er þó ljóst að þar sem Ísland er ekki aðili að Evrópusambandinu lýtur íslensk stjórnsýsla ekki sambærilegs aga eða aðhalds og stjórnsýsla ESB-ríkja. Þetta kom skýrt fram í aðdraganda hrunsins. Í útskrift af frægu símtali Alistair Darling og Árna M. Mathiesen má sjá að símtalið hefst á því að þessir kollegar kynna sig hvor fyrir öðrum. Samt hefur sá þeirra sem skemur hafði setið í embætti - Darling - setið í stóli fjármálaráðherra í 15 mánuði þegar þarna er komið sögu. Ef Ísland hefði verið aðili að Evrópusambandinu hefðu þessir menn í það minnsta hist 15 sinnum þegar þetta símtal fór fram, á mánaðarlegum fundum fjármálaráðherra aðildarríkjanna. Þá er líka ljóst að staða bankakerfisins hér á landi hefði verið umræðuefni á öllum þessum fundum og aðgerðir til að styðja við fjármálalegan stöðugleika á Íslandi. Þess í stað voru stjórnvöld í grannlöndum okkar illa upplýst um stöðuna og aðstoðar þeirra hafði aldrei verið leitað með skilvirkum hætti. Sama nesjamennska einkenndi að sínu leyti kynningu stjórnvalda á neyðarlögunum. Hvernig dettur mönnum í hug að setja neyðarlög, biðja Guð að blessa þjóðina, en taka ekki einu sinni upp síma til að upplýsa nánustu nágrannaríki, sem mest urðu fyrir barðinu á bankahruninu, um aðgerðirnar og um afleiðingar þeirra á hagsmuni annarra ríkja? Aðild að Evrópusambandinu hefði sannanlega tryggt allt aðra faglega umgjörð um starf íslenskra stjórnvalda að því að tryggja fjármálastöðugleika. Veikleikar í samfélagsgerðinni Við þurfum að horfa á fleiri þætti í okkar eigin framgöngu. Við tókum - flest - gagnrýnislítinn þátt í samstöðu um fjármálaútrás sem var hins vegar mjög viðkvæm fyrir sveiflum í eignaverði og aðgangi að erlendu fjármagni. Hollt er að minnast þess að í kosningabaráttunni 2007 mæltu Sjálfstæðismenn gegn aðild að ESB með þeim rökum að hagvöxtur væri mun meiri hér á landi en í ESB-löndum. Þannig duttu menn í þá gildru að bera saman falskan hagvöxt - tilbúinn með innistæðulausum skattalækkunum, erlendri lántöku og alltof sterku gengi - við sjálfbæran hagvöxt í öðrum ríkjum, sem byggður var í ríkari mæli á raunverulegri verðmætaaukningu. Það er rík hjarðhugsun í okkur Íslendingum og okkur veitist alltof létt að gera lítið með málefnalega gagnrýni útlendinga og afskrifa hana sem öfund eða úrtölur. Okkur er líka alltof gjarnt að leita töfralausna og hlífa okkur við að taka hið súra með því sæta. Umræða síðustu ára um að íslensku bankarnir og íslenska hagkerfið lyti allt öðrum lögmálum en hagkerfi og bankar í öðrum löndum er þannig nákvæmlega sömu ættar og sú lítt veruleikatengda uppfinningasemi síðustu mánaða að ætla að taka upp evru einhliða eða flýja í faðm Noregskonungs og krónu hans - eða að fresta því nú að taka nauðsynlegar ákvarðanir um framtíðarstefnu í peningamálum. Og síðast en ekki síst virðumst við aldrei hafa þrek til öfgalausrar greiningar á umfangsmiklum vandamálum sem kalla á málefnalega samræðu, skipulegt verklag og öguð vinnubrögð. Eitt er enn vantalið og það er veikleiki okkar í málefnalegri, gagnrýninni og hreinskiptinni umræðu. Kannski veldur fámennið hér því að okkur veitist oft erfitt að segja sannleikann hverju um annað og gagnrýna hugmyndir og viðhorf af heiðarleika. Við þekkjum öll hversu erfitt það er að segja samstarfsmönnum og - konum sannleikann um hæfni þeirra og getu. Við eigum líka erfitt, í opinberri umræðu, með að skilja að málefnalega gagnrýni á verk og hugmyndir og viðhorf fólks og svo gagnrýni og árásir á það sjálft og persónu þess. Afleiðingin er hugmyndaleg leti og gagnrýnislaus vanahugsun, samhliða því að skjallbandalög ráða oft meiru um framgang fólks og hugmynda en hæfni þess eða gildi hugmyndanna. Veikleikar í efnahagsgrundvelli Sú mikla skuldsetning sem varð íslenskum bönkum og fyrirtækjum að falli er ekki séríslenskt fyrirbæri. Sambærileg vandamál eru nú að koma upp víða um hinn vestræna heim. Fyrirtæki á Vesturlöndum tóku oft lán á lágum vöxtum í lágvaxtamyntum, með afar áþekkum hætti og fjölmörg heimili þekkja. Lánin voru svo notuð til fjárfestinga á þeim tímum sem eignaverð var í algeru hámarki um öll Vesturlönd. Við áföll lækkar eignaverðið hratt, gengi heimagjaldmiðilsins veikist og á sama tíma styrkist gengi lágvaxtamyntanna og vextir þar hækka. Við það sporðreisist í einni svipan sú áferðarfallega jafna sem lá til grundvallar eignamyndun sem byggð var erlendri lántöku. En vandinn hér á landi varð stærri vegna þess hversu stórir bankarnir voru orðnir í samanburði við þjóðarbúið. Eigendur áttu oft einnig fyrirtækin keyptu önnur fyrirtæki og sömu aðilar gátu setið allt í kringum borðið og hagnast á sömu viðskiptunum frá mörgum hliðum. Þá voru bankarnir sannanlega mjög útlánaglaðir. Íslensk fyrirtæki tóku einnig mjög virkan þátt í þessari eignabólu og skuldsettu sig til fjárfestinga í öðrum og oft óskyldum rekstri. Það er eðlilega spurt hvað veldur þessari miklu áhættusækni íslenskra fyrirtækja? Er það einhver sérstök útrásargleði sem á rætur djúpt í þjóðarsálinni? Ekkert bendir til þess. Nærtækari skýring er efalaust sú saga efnahagslegs óstöðugleika sem einkennt hefur íslenskt þjóðlíf. Rekstraraðilar hér á landi hafa aldrei getað reiknað með stöðugu rekstrarumhverfi að neinu leyti. Það eina sem hefur verið stöðugt er óstöðugleikinn. Há verðbólga og miklar gengissveiflur valda óbærilegri óvissu um grundvallarforsendur í rekstri hvers fyrirtækis. Ganga má svo langt að segja að almenn viðmið um arðsemi og hagkvæmni í rekstri hafi enga sérstaka þýðingu við þessar aðstæður. Hvers vegna á forstjóri fyrirtækis að leggja orku og mikla vinnu í skipulagsbreytingar og þjálfun starfsfólks sem skilar kannski 2-3% sparnaði í starfsmannahaldi, þegar gengissveiflur þurrka út í einni svipan allan rekstrarhagnað ársins og meira til? Hvernig á að reikna forsendur í fasteignarekstri, sem eðli málsins samkvæmt er rekstur sem á að skila litlum en stöðugum hagnaði á mörgum áratugum? Krónan og óstöðugleiki hennar ýtir þannig undir áhættusækni og skammtímahugsun í atvinnulífinu og dregur þrótt úr þeim atvinnugreinum sem ættu að vera áhættuminni og byggja á lítilli en stöðugri framlegð og traustri framtíðarsýn. Á engum bitnar þetta ver en á landsbyggðinni, þar sem atvinnustarfsemi er almennt viðkvæmari fyrir áföllum og getur helst búið að því samkeppnisforskoti að bjóða upp á stöðugra rekstrarumhverfi og minni starfsmannaveltu. Þá ber ekki að vanmeta þátt ofurlaunakerfa bankanna í hruninu. Eftir að lánskjör bankanna á erlendum mörkuðum tóku dýfu á árinu 2006 mælti flest með auknu aðhaldi í rekstri þeirra og meiri hófsemi í erlendum skuldbindingum þeirra. Niðurstaðan varð hins vegar þveröfug og áfram var haldið að auka við útþenslu erlendis. Ekki verður betur séð en að árangurstengingar í launum stjórnenda bankanna hafi hvatt til frekari útþenslu, frekar en til hófsemi í útlánum. Launakerfið hafi þannig hvatt stjórnendur til að halda áfram skuldsettri útrás, þegar hagsmunir þjóðarinnar voru frekar þeir að dregið yrði úr áhættu og skuldsetningu. Ekki verður séð að FME hafi metið þessa áhættu með fullnægjandi hætti í eftirliti þess með bönkunum. Það hlýtur að vera grundvallaratriði fyrir fjármálalegan stöðugleika að launakerfi stjórnenda sé ekki á þann veg úr garði gert að það verðlauni áhættuhegðun en hegni mönnum fyrir fyrirhyggju og varkárni. Veikleikar í stjórnmálakerfinu Stjórnmálin eru ekki laus við sök í aðdraganda hrunsins. Eitt er það að stjórnsýslan var ekki nógu sterk og sjálfstæð til að vara við og leggja sjálfstætt mat á hættur, eins og fyrr var rakið. Hitt er að stjórnmálaflokkar læstust inni í hringrás gagnkvæms aðgerðaleysis á örlagatímum. Samfylkingin taldi strax fyrir kosningar 2007 ljóst að efnahagskerfi landsins gæti ekki búið við íslenska krónu til lengri tíma litið og að aðild að Evrópusambandinu væri því óhjákvæmileg. Enginn annar stjórnmálaflokkur féllst á þau rök. Við stjórnarmyndun 2007 var ákveðið að byggja áfram á EES-samningnum en spurningin um aðild átti að vera til stöðugs endurmats í ljósi hagsmuna landsins. Fljótt varð ljóst að samstarfsflokkurinn túlkaði þetta svo að aðild að Evrópusambandinu væri ekki til umræðu á kjörtímabilinu og eftir því sem hagsmunir landsins af aðild urðu augljósari, fjölgaði þeim Sjálfstæðismönnum sem lögðust gegn aðild að því virðist á hugsjónalegum forsendum. Eftir á að hyggja voru það mistök af hálfu Samfylkingarinnar að láta ekki brjóta á Evrópusambandsaðild vorið 2007. Þá hefði Sjálfstæðisflokkurinn verið tilneyddur að mynda stjórn með öðrum flokki og slíkt afturhaldsbandalag hefði þá borið skýra og augljósa ábyrgð á verkleysi í gjaldmiðilsmálum. Það er líka sérstakt áhyggjuefni að eftir því sem seig á ógæfuhliðina á árinu 2007 og í upphafi árs 2008 skyldi stjórnmálakerfið vera ófært um að taka á vandamálinu hratt og hefja aðildarumsóknarferli. Allflestir hagfræðingar og hagsmunaaðilar í atvinnulífi voru orðnir sammála þegar þarna var komið sögu um að aðild að ESB væri eina aðgerðin sem skapað gæti nauðsynlegan stöðugleika og dregið úr áhættu af hruni bankakerfisins. Samt hjakkaði stjórnmálaumræðan í sömu hjólförunum og sömu útúrsnúningar og rangtúlkanir einkenndu umræðuna sem fyrr. Að læra af reynslunni Í ljósi þessarar greiningar er framtíðarsýnin skýr. Við þurfum fjölbreytt, opið og lýðræðislegt samfélag. Við höfum ekki efni á að skipa ekki besta fólkinu til starfa í hverri stétt. Við þurfum að ljúka tímabili þöggunar, meðvirkni og skjallbandalaga. Við þurfum hreinskiptna og óvægna umræðu um kost og löst á hverju máli og á hverri hugmynd. Við þurfum að breyta stjórnarskrá og gera ríkisstjórnina að einu stjórnvaldi. Þá þurfa allir ráðherrar að axla ábyrgð af öllum ákvörðunum ríkisstjórnar. Slíkt skýrir pólitíska ábyrgð og gerir kjósendum betur kleift að tengja saman orð og athafnir. Það er komið nóg af ríkisstjórnum með tvær stefnur í álversmálum og hvalveiðimálum, með tilheyrandi hráskinnaleik og óljósri ábyrgð gagnvart kjósendum. Það er komið nóg af því að einn ráðherra misfari með veitingavald og þvingi samt í reynd aðra ráðherra til að axla samábyrgð af lögleysu og valdníðslu. Við þurfum eina ríkisstjórn með eitt markmið en ekki tólf ráðherra sem halda að þeir séu tólf sólir í tólf sjálfstæðum sólkerfum. Í kjölfarið þarf að brjóta niður múra milli ráðuneyta og afnema þannig smákóngavald sem hamlar skipulegu starfi og árangri í opinberri stefnumörkun. Styrkja þarf forsætisráðuneytið verulega og fela því stefnumörkunarhlutverk og yfirstjórn allrar lagasmíðar á vettvangi stjórnarráðsins. Styrkja þarf sjálfstæði embættismanna í stjórnsýslunni. Afnema þarf algerlega pólitískar ráðningar. Taka á ráðningavald úr höndum ráðherra og fela það nýrri starfsmannaskrifstofu í stjórnarráðinu sem lúti þingkjörinni yfirstjórn og utanaðkomandi eftirliti. Dómara á að skipa af ríkisstjórn í heild sameiginlega og skipan þeirra að vera staðfest af 3/5 hluta þings. Hin nýja starfsmannaskrifstofa á einnig að vera ábyrg fyrir því að fullnægjandi þekking og reynsla sé tiltæk í stjórnsýslunni á hverjum tíma, þar á meðal á áhættumati og árangursstjórnun. Gera þarf embættismönnum skylt að gera mat á áhættu af stöðu mála á verkefnasviði þeirra og leggja þannig grunn að upplýstum ákvörðunum um viðbrögð við hættu. Styrkja þarf faglegan aga í stjórnsýslunni með aðild að Evrópusambandinu og auknu návígi íslenskra embættismanna og ráðherra við kollega í öðrum löndum. Endurreisa þarf Þjóðhagsstofnun til að sinna því hlutverki að veita faglega og óháða ráðgjöf um efnahagsmál, með enn skýrari hætti en hún þó gerði á sínum tíma. Jafnframt þarf að verja faglegt sjálfstæði Seðlabankans fyrir hinu pólitíska valdi og gera honum þannig kleift að leggja sjálfstætt og heildstætt mat á fjármálastöðugleika og þau atriði sem ógna honum. Leggja þarf grunn fyrir langtímasjónarmið í efnahagsmálum, draga úr áhættusækni og gera fyrirtækjum kleift að taka ákvarðanir og gera áætlanir til lengri tíma. Grundvallaratriði í því efni er aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru sem gjaldmiðils. Stefnumörkun þar um þolir enga bið. Með lægri vöxtum og auknum gengisstöðugleika skapast loks tækifæri hér á landi fyrir ýmsan áhættulítinn rekstur með litla en stöðuga hagnaðarvon. Efla þarf Fjármálaeftirlitið og fá þar til starfa erlenda sérfræðinga fyrst um sinn. Setja þarf almenna launastefnu í nýju bönkunum sem komi í veg fyrir ofurlaunaþrýsting. Jafnframt þarf að tryggja að afkastahvetjandi launakerfi í bönkum verðlauni ekki einungis útþenslu heldur einnig ábyrgð, aga og aðhald. Stjórnmálastarf þarf að endurhugsa í ljósi nývaknaðs áhuga á milliliðalausri þátttöku. Kosningalög þurfa að endurspegla rétt fólks til persónukjörs innan ramma flokkslistavals. Við verðum að varast þær hættur sem felast í fyrirframgefnum niðurstöðum, þöggun og innpökkuðum stjórnmálalausnum. Við þurfum þvert á móti að brjóta stjórnmálunum leið út úr bakherbergjunum og ýta þeim fram í dagsljósið. Til þess þurfum við að læra að binda saman kosti umræðu og skoðanaskipta og þann heiðarleika og hreinskiptni sem er nauðsynleg forsenda siðlegs samfélags. Höfundur er alþingismaður.
Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun
Vinnulag í rannsóknaverkefnum er ekki vísbending um stjórnarhætti þess sem borgar Haraldur Ólafsson Skoðun
Skoðun Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson skrifar
Skoðun Vinnulag í rannsóknaverkefnum er ekki vísbending um stjórnarhætti þess sem borgar Haraldur Ólafsson skrifar
Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir skrifar
Skoðun Mikilvægi samgöngusáttmála fyrir Vestfirði Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir,Unnar Hermannsson,Halldór Halldórsson skrifar
Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun
Vinnulag í rannsóknaverkefnum er ekki vísbending um stjórnarhætti þess sem borgar Haraldur Ólafsson Skoðun