Körfubolti

Aftur stöðvaði Lakers sigurgöngu Boston

Lamar Odom tryggði Lakers sigurinn af vítalínunni í nótt
Lamar Odom tryggði Lakers sigurinn af vítalínunni í nótt AP

Los Angeles Lakers vann í nótt þýðingarmikinn sigur á erkifjendum sínum í Boston Celtics 110-109 eftir framlengdan og æsispennandi leik í Boston.

Lamar Odom tryggði Lakers sigurinn með vítaskotum þegar 16 sekúndur voru til leiksloka og vörn Lakers náði að halda í lokin þegar Boston reyndi að tryggja sér sigurinn.

Þetta var síðari leikur liðanna í deildarkeppninni í vetur og hefur Lakers unnið báðar viðureignirnar. Athyglisvert er að þegar Lakers vann fyrri leikinn, stöðvaði liðið 19 leikja sigurgöngu Boston og í nótt stöðvaði það 12 leikja sigurgöngu meistaranna.

Kobe Bryant skoraði 26 stig og hirti 10 fráköst fyrir Lakers og Pau Gasol skoraði 24 stig og hirti 14 fráköst.

Ray Allen skoraði 22 stig fyrir Boston, Paul Pierce 21 og Rajon Rondo skoraði 16 stig, gaf 12 stoðsendingar og hirti 8 fráköst.

Síðast þegar liðin mættust í Boston unnu heimamenn 131-92 stórsigur, en það var sjötti leikur liðanna í lokaúrslitunum í júní í fyrra þegar Boston tryggði sér titilinn í fyrsta skipti í tvo áratugi.

Þetta var fimmti sigur LA Lakers í röð og fer liðið því á góðu skriði inn í aðra magnaða viðureign á sunnudagskvöldið þar sem það sækir heim LeBron James og félaga í Cleveland. Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport klukkan 20:25.

Utah vann sannfærandi sigur á Dallas á heimavelli sínum 115-87. Deron Williams skoraði 34 stig og gaf 12 stoðsendingar fyrir Utah en Josh Howard skoraði 16 stig fyrir Dallas.

Loks vann Philadelphia 99-94 sigur á Indiana á heimavelli. Willie Green skoraði 23 stig fyrir Philadelphia, Andre Iguodala skoraði 20 stig, gaf 11 stoðsendingar og hirti 8 fráköst og Samuel Dalembert skoraði 18 stig og hirti 20 fráköst. Hjá Indiana skoraði Mike Dunleavy 21 stig.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×