Körfubolti

NBA í nótt: Chicago vann Cleveland í framlengingu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Luol Deng og félagar höfðu betur gegn LeBron og hinum í Cleveland.
Luol Deng og félagar höfðu betur gegn LeBron og hinum í Cleveland. Nordic Photos / Getty Images

Cleveland tapaði aðeins sínum sjöunda leik í NBA-deildinni í nótt er liðið tapaði fyrir Chicago í framlengdum leik, 102-93.

Cleveland átti reyndar möguleika að tryggja sér sigur á lokasekúndum leiksins en skot LeBron James geigaði.

Chicago gerði sér svo lítið fyrir og skoraði tólf af fyrstu þrettán stigum framlengingarinnar og tryggði sér þannig á endanum „öruggan" sigur.

Derrick Rose og Luol Deng reyndust afar dýrmætir á lokasprettnum í leiknum en Rose hélt sínum mönnum inn í leiknum undir lokin og Deng skilaði mikilvægum stigum í framlengingunni.

Deng var stigahæstur með 22 stig en Rose kom næstur með sextán. Tyrus Thomas skoraði fimmtán stig. LeBron James skoraði 28 stig, tók fjórtán fráköst og gaf sjö stoðsendingar. Maurice Williams kom næstur með 26 stig.

Denver vann Phoenix, 119-113, einnig í framlengdum leik. Chauncey Billups náði að hrista af sér flensuveikindi og skoraði 26 stig í leiknum, þar af fimm í framlengingunni. Nene var með sautján stig og fjórtán fráköst og Kenyon Martin 24 stig. Hann setti niður þrist undir blálokin og tryggði sínum mönnum sigurinn.

Grant Hill var stigahæstur hjá Phoenix með 25 stig, Amare Stoudemire skoraði 21 og Steve Nash 20.

Portland vann New Jersey, 105-99. Brandon Roy skoraði 29 stig og Jerryd Bayless átti góða innkomu og skoraði 23. Devin Harris var stigahæstur hjá New Jersey með 23 stig.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×