Körfubolti

NBA í nótt: Oklahoma City vann Dallas

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Russell Westbrook tekur hér skot að körfunni í nótt.
Russell Westbrook tekur hér skot að körfunni í nótt. Nordic Photos / Getty Images
Oklahoma City vann öflugan sigur á Dallas í NBA-deildinni í nótt, 96-87, þó svo að hvorki Kevin Durant né Jeff Green voru með liðinu vegna meiðsla.

Nýliðinn Russell Westbrook átti stórleik og náði sinni fyrstu þreföldu tvennu á ferlinum er hann skoraði sautján stig, tók tíu fráköst og gaf tíu stoðsendingar. Þá skoraði Nenad Krstic 26 stig.

Westbrook er þar með fyrsti leikmaðurinn hjá félaginu til að ná þrefaldri tvennu síðan félagið flutti frá Seattle í sumar.

Dirk Nowitzky reyndi hvað hann gat að knýja fram sigur sinna manna og fór mikinn er Dallas minnkaði muninn úr 23 stigum í fjögur þegar rúmar fjórar mínútur voru til leiksloka.

Nowitzky setti þá niður þrist en hvorki hann né aðrir leikmenn Dallas næstu fjórar mínútur leiksins og þar með var sigur Oklahoma City tryggður.

Kyle Weaver var með átján stig fyrir Oklahoma City í leiknum en það er persónulegt met. Thabo Sefolosha var með fimmtán stig og Jason Terry 20 fyrir Dallas.

New Orleans vann Philadelphia, 98-91. David West fór mikinn í leiknum og skoraði 30 stig auk þess sem hann tók tíu fráköst. Þetta var fimmti sigur New Orleans í röð.

Atlanta vann Washington, 98-89. Marvin Williams skoraði 28 stig en Atlanta vann þar með allar viðureignir sínar gegn Washington í deildinni í vetur.

Cleveland vann Miami, 107-100. LeBron James var með 42 stig, Mo Williams 30 og þar af sautján í fjórða leikhluta. Cleveland var ellefu stigum undir þegar skammt var til leiksloka en náði að innbyrða sigur eftir góðan lokasprett.

San Antonio vann LA Clippers, 106-78. Tony Parker var með 26 stig og tíu stoðsendingar fyrir San Antonio.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×