Körfubolti

Phil Jackson þjálfar stjörnulið Vesturdeildar

Hér má sjá keppnisbúningana sem notaðir verða í ár, en þeir voru fyrir skömmu kynntir af Adidas
Hér má sjá keppnisbúningana sem notaðir verða í ár, en þeir voru fyrir skömmu kynntir af Adidas

Phil Jackson, þjálfari LA Lakers, mun þjálfa úrvalslið Vesturdeildarinnar í stjörnuleiknum árlega í NBA sem fram fer í Phoenix þann 15. næsta mánaðar.

Þetta var tilkynnt eftir að ljóst varð að Lakers-liðið verður í versta falli með jafngott vinningshlutfall og San Antonio Spurs þann 1. febrúar.

Styttra er síðan Gregg Popovich þjálfari San Antonio stýrði stjörnuliði og því fengi Jackson heiðurinn ef liðin yrðu jöfn í töflunni.

Lakers liðið hefur unnið 33 leiki og tapað aðeins 8 og virðist ætla að stinga af í Vesturdeildinni þetta árið.

Jackson mun stýra liði í stjörnuleik í fjórða skipti á ferlinum, en hann þjálfaði lið Austurdeildar árin 1992 og 1996 sem þjálfari Chicago Bulls og Vesturdeildar árið 2000 þegar hann var þjálfari Lakers.

Þjálfari má ekki stýra liði í stjörnuleiknum tvö ár í röð og fyrir þær sakir komu þeir Doc Rivers hjá Boston og Byron Scott hjá New Orleans ekki til greina að þessu sinni.

Stjörnuleikurinn er mjög vinsæll viðburður í NBA deildinni sem markar miðpunkt keppnistímabilsins.

Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport eins og undanfarin ár.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×