Körfubolti

Bynum og Bryant fóru á kostum gegn Clippers

Andrew Bynum (17) fór á kostum í liði Lakers í nótt
Andrew Bynum (17) fór á kostum í liði Lakers í nótt AP

Ellefu leikir voru á dagskrá í NBA deildinni í körfubolta í nótt. LA Lakers vann 108-97 sigur á grönnum sínum í LA Clippers þar sem Andrew Bynum spilaði besta leik sinn á ferlinum til þessa.

Bynum nýtti sér fjarveru miðherjans Marcus Camby í liði Clippers og skilaði 42 stigum og 15 fráköstum. Kobe Bryant var með þrennu í leiknum, 18 stig, 12 stoðsendingar og 10 fráköst. Nýliðinn DeAndre Jordan stóð sig vel hjá Clippers með 23 stig og 12 fráköst.

Boston vann sjötta leikinn í röð þegar það lagði Miami 98-83. Ray Allen skoraði 27 stig fyrir Boston en Dwyane Wade 25 fyrir Miami.

Mike D´Antonio vann sigur með nýja liðinu sínu New York gegn gamla liðinu sínu Phoenix 114-109.

New Orleans lagði New Jersey 102-92 þar sem Chris Paul var hársbreidd frá þrennu með 29 stig, 9 fráköst og 8 stoðsendingar.

Dallas steinlá fyrir Milwaukee 133-99 þrátt fyrir 30 stig frá Dirk Nowitzki. Charlie Villanueva skoraði 32 stig og hirti 10 fráköst fyrir Milwaukee.

Houston lagði Utah í viðureign liðanna sem mæst hafa í fyrstu umferð úrslitakeppninnar síðustu tvö ár. Deron Williams skoraði 32 stig og gaf 11 stoðsendingar fyrir Utah en Rafer Alston skoraði 23 stig og gaf 8 stoðsendingar fyrir Houston.

Cleveland náði sér á strik eftir tap fyrir LA Lakers með því að skella Portland á sterkum útivelli 104-98. LeBron James skoraði 34 stig og gaf 14 stoðsendingar fyrir Cleveland en Brandon Roy skoraði 23 stig fyrir heimamenn.

Detroit vann öruggan sigur á Toronto 95-76, Charlotte vann enn einn leikinn þegar það skellti Memphis 101-86, Washington lagði Sacramento úti 110-107 og Oklahoma virðist vera að ná lífsmarki eftir 122-121 sigur á Golden State þar sem Jeff Green tryggði Oklahoma sigurinn með flautukörfu.

Staðan í deildinni



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×