Körfubolti

Nelson vann 1300. sigurinn

Stephen Jackson lætur þjálfara sinn Don Nelson hafa boltann eftir 1300. sigurinn í nótt
Stephen Jackson lætur þjálfara sinn Don Nelson hafa boltann eftir 1300. sigurinn í nótt NordicPhotos/GettyImages

Fimm leikir fóru fram í NBA deildinni í körfubolta í nótt. Golden State lagði Oklahoma 133-120 á heimavelli og færði þar með þjálfaranum Don Nelson 1300. sigurinn á ferlinum.

Aðeins Lenny Wilkens (1332) hefur unnið fleiri leiki en Nelson í sögu deildarinnar. Stephen Jackson skoraið 26 stig og gaf 9 stoðsendingar fyrir Golden State og Jamal Crawford skoraði 24, en Kevin Durant skoraði 32 stig fyrir Oklahoma og Russell Westbrook skoraði 31 stig og gaf 11 stoðsendingar.

Utah heiðraði minningu fyrrum eiganda félagsins Larry Miller þegar liðið fékk New Orleans í heimsókn í nótt. Einnar mínútu þögn var fyrir leikinn til að minnast Miller en svo fóru leikmenn Utah út á völlinn og unnu góðan sigur 102-88. Mehmet Okur skoraði 25 stig fyrir Utah en Chris Paul 24 fyrir gestina.

San Antonio lauk 19 daga keppnisferðalagi sínu með yfirburðasigri á Washington í höfuðborginni 98-67. Roger Mason skoraði 25 stig fyrir San Antonio en Caron Butler 24 fyrir heimamenn.

Miami vann Philadelphia 97-91 þar sem Dwyane Wade skoraði 25 stig fyrir Miami, en þetta var 800. sigurleikurinn í ungri sögu félagsins. Andre Miller var bestur hjá Philadelphia með 30 stig og 9 fráköst og hefur hann nú spilað 502 leiki í röð án þess að missa úr leik. Það er lengsta rispa í sögu deildarinnar.

Loks vann Dallas sigur á Sacramento á heimavelli 116-95 þar sem varamannabekkur liðsins skóp sigurinn. Josh Howard skoraði 20 stig fyrir Dallas og varamennirnir Brandon Bass og James Singleton skoruðu 20 og 19 stig. Beno Udrih var með 18 stig hjá Sacramento.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×