Spennan heldur áfram í Pepsi-deild kvenna í kvöld þegar heil umferð verður spiluð og nokkrir athyglisverðir leikir.
Erkifjendurnir Valur og KR mætast á Vodafonevellinum en gengi liðanna í sumar hefur verið afar ólíkt því Íslandsmeistarar Vals eru á toppi deildarinnar en Bikarmeistarar KR um miðja deild.
Valur vann fyrri leik liðanna á KR-vellinum 1-3 en þá var markvörðurinn María Björg Ágústsdóttir með KR en hún leikur núna með Val.
Þór/KA og Breiðablik mætast á Akureyri en Blikastúlkur eru á toppnum ásamt Val og Stjörnunni en Akureyrarstúlkur er skammt undan í fjórða sætinu, fjórum stigum á eftir toppliðunum.
Breiðablik vann 6-1 stórsigur í fyrri leik liðanna í Kópavogi.
Stjarnan fær Aftureldingu/Fjölni í heimsókn en Stjörnustúlkur hafa unnið alla fjóra heimaleiki sína í deildinni í sumar með markatölunni 11-1.
Þá mætast Fylkir og Keflavík í Árbænum og ÍR heimsækir GRV til Grindavíkur.
Leikur Þór/KA og Breiðabliks hefst kl. 18:15 en hinir leikirnir hefjast kl. 19:15.