Körfubolti

Bynum aftur úr leik hjá Lakers

NordicPhotos/GettyImages

Miðherjnn ungi Andrew Bynum hjá LA Lakers verður frá næstu tvo til þrjá mánuðina eftir að í ljós kom að hann er með rifið liðband í hægra hné.

Bynum meiddist á hné á svipuðum tímapunkti á síðustu leiktíð og kom þá ekki meira við sögu. Lið Lakers þurfti því að vera án hans í úrslitakeppninni.

Miðað við þann tíma sem talað er um að Bynum verði frá að þessu sinni ætti hann að geta byrjað að spila á ný þegar úrslitakeppnin hefst í vor, en hingað til hefur pilturinn ekki sýnt fram á að vera fljótur að ná sér eftir meiðsli.

Þetta eru slæm tíðindi fyrir Lakers-liðið sem sannarlega þarf á sterkum miðherja að halda í úrslitakeppninni eins og kom í ljós í lokaúrslitunum gegn Boston síðasta sumar.

Bynum er þriðgi stigahæsti leikmaður Lakers og annar frákastahæsti maður liðsins með 14 stig, 8,2 fráköst og tæp 2 varin skot að meðaltali í leik.

Hann var hinsvegar með 26 stig, 14 fráköst og 3 varin skot að meðaltali í síðustu fimm leikjum sínum áður en hann meiddist.

Bynum meiddist þegar hann lenti í samstuði við Kobe Bryant í leik gegn Memphis á laugardaginn. Hann er 21 árs gamall.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×