Skoðun

Á leið til Evrópu

Árni Páll Árnason skrifar
Í nýrri verkefnaskrá ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna eru tekin mikilvæg skref í átt til aðildar að Evrópusambandinu. Breytingar verða gerðar á stjórnarskrá sem gera kleift að breyta stjórnarskránni með sérstakri þjóðaratkvæðagreiðslu. Með því er aflétt þeirri hindrun sem stjórnarskrá setur í veg aðildarferlisins að óbreyttu, þar sem þörf er á samþykki tveggja þinga með kosningum á milli til að stjórnarskrá verði breytt.

Þegar þessar breytingar verða gengnar í gegn mun unnt að breyta stjórnarskránni til samræmis við aðild að Evrópusambandinu í sömu þjóðaratkvæðagreiðslu og fara mun fram um aðildarsamninginn sjálfan.

Hér er því tryggt að af aðild geti orðið fljótlega á næsta kjörtímabili ef vilji ríkisstjórnar stendur til aðildar. Samfylkingin mun leggja höfuðáherslu á aðild að Evrópusambandinu í kosningabaráttu næstu mánaða, enda þar um að ræða brýnasta hagsmunamál íslensks almennings jafnt í bráð og lengd.

Þessi niðurstaða í verkefnaskránni er sérstakt fagnaðarefni, enda leit að óbreyttu út fyrir að þessir vankantar á stjórnarskránni gætu tafið aðildarferlið út næsta kjörtímabil. Það er einnig vert að hafa í huga að VG er samkvæm sjálfum sér, enda hefur af hálfu forystumanna VG verið lögð höfuðáhersla á að þjóðin eigi að hafa lokaorð um það hvort af aðild að Evrópusambandinu verði og að ekki eigi að leggja ómálefnalegar hindranir eða vegartálma í þá leið. Sú málefnalega afstaða er hróss verð.

Sjálfstæðisflokkurinn stendur eftir sem nátttröll í Evrópuumræðunni. Flokkurinn er ófær um stefnumörkun og líður fyrir innbyrðis ósætti milli þjóðrembumanna í heimastjórnararminum og hinnar víðsýnni en valdalitlu miðju í flokknum. Samfylkingin hefur reynt að reka þennan marghöfða þurs til verka í Evrópumálum á undanförnum mánuðum, en þar hefur lítið miðað.

Íslensk fyrirtæki og heimili búa við óvissu og erfiðleika, sem verða erfiðari því lengur sem aðildar­umsókn að Evrópusambandinu tefst. Það er þjóðar­­nauðsyn að ná víðtækri samstöðu um aðildarumsókn strax að loknum kosningum.

Höfundur er alþingismaður.




Skoðun

Sjá meira


×