Körfubolti

NBA í nótt: Boston og New Jersey unnu í framlengingu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Devin Harris og Vince Carter í leiknum í nótt.
Devin Harris og Vince Carter í leiknum í nótt. Nordic Photos / Getty Images
Bæði Boston og New Jersey unnu sína leiki í framlengingu en alls fóru sex leikir fram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

New Jersey vann Oklahoma, 103-99, þar sem nýliðinn Brook Lopez fór á kostum og skoraði 31 stig auk þess sem hann tók þrettán fráköst.

Það var reyndar alger klaufaskapur að New Jersey missti þennan leik í framlengingu. Vince Carter náði að setja niður þrist þegar níu sekúndur voru eftir sem hefði líklega dugað til að tryggja New Jersey sigur í leiknum.

Hins vegar var karfan dæmd ógild þar sem að þjálfari New Jersey, Lawrance Frank, var búinn að hlaupa inn á völlinn og biðja um leikhlé áður en skotið fór niður.

„Við náðum að stilla þessu fullkomnlega upp fyrir mig en hann hélt að við værum í vandræðum," sagði Carter. „Hann vildi stilla okkur upp í kerfi. Við náðum þó sem betur fer að klára leikinn í framlengingu enda hefði það verið ömurlegt að tapa leiknum á þennan máta."

Carter skoraði 21 stig í leiknum og Devin Harris sautján. Hjá Oklahoma var Kevin Durant stigahæstur með 26 stig.

Boston vann Toronto, 115-109. Paul Pierce skoraði 39 stig í leiknum, þar af níu í framlengingunni en þetta var annar sigur Boston á Toronto á jafn mörgum dögum. Kevin Garnett var með 20 stig og tólf fráköst fyrir Boston. Andrea Bargnani tryggði Toronto sigur með þriggja stiga skoti þegar sekúnda var eftir af leiknum var stigahæstur hjá Toronto með 23 stig.

Portland vann Chicago, 109-95. Travis Outlaw skoraði 33 stig fyrir Portland og Greg Oden sautján stig og þrettán fráköst.

Utah vann Indiana, 120-113. Mehmet Okur fór mikinn í leiknum og skoraði 43 stig sem er persónulegt met hjá honum. Indiana komst nálægt því að jafna metin í fjórða leikhluta eftir að hafa mest lent 20 stigum undir í leiknum. Danny Granger var með 30 stig og sjö stoðsendingar fyrir Indiana.

Milwaukee vann Washington, 97-91. Michael Redd skoraði 29 stig og Andrew Bogut átján auk þess sem hann tók tíu fráköst.

New York vann New Orleans, 101-95. David Lee var stigahæstur með 24 stig og Al Harrington skoraði 20. David West skoraði 25 stig fyrir New Orleans auk þess sem hann tók fjórtán fráköst.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×