Körfubolti

Bryant fór upp fyrir Jordan

Phil Jackson óskar Bryant til hamingju eftir að hann skoraði 61 stig í New York í fyrrakvöld
Phil Jackson óskar Bryant til hamingju eftir að hann skoraði 61 stig í New York í fyrrakvöld AP

Það er ekki á hverjum degi sem leikmenn í NBA deildinni skáka sjálfum Michael Jordan, en það gerði Kobe Bryant þegar hann skoraði 61 stig á móti New York Knicks í fyrrakvöld.

Þetta var í fimmta sinn á ferlinum sem Kobe Bryant skorar 60 stig eða meira í leik í NBA deildinni og þar með er hann einn í öðru sæti yfir flesta 60 stiga leiki á ferlinum í NBA deildinni. Jordan náði þessu ótrúlega afreki fjórum sinnum á ferlinum.

Bryant á hinsvegar óralangt í að ná manninum í efsta sæti listans, en það er skorunarmaskínan Wilt Chamberlain sem gerði það 32 sinnum á ótrúlegum ferli með Philadelphia og Los Angeles.

Kobe Bryant hitti úr öllum 20 vítaskotum sínum gegn New York í fyrrakvöld og setti þar með félagsmet yfir flest skoruð víti í leik án þess að brenna af.

Eldra metið áttu þeir Jerry West og Magic Johnson sem hittu báðir úr öllum 18 vítum sínum.

NBA metið yfir flest skoruð víti í leik án þess að klikka á Dominique Wilkins sem hitti úr öllum 23 vítum sínum í leik með Atlanta árið 1992.

Bryant var valinn leikmaður janúarmánaðar í NBA deildinni eftir að hafa skorað 27 stig, gefið 7 stoðsendingar og hirti 6 fráköst að meðaltali í 16 leikjum. Lakers liðið vann 12 af þessum 16 leikjum.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×